St. Fjall - deild

Starfsmannafélag Ólafsfjarðar

Að frumkvæði og með hvatningu bæjarstjórnar í Ólafsfirði voru starfsmenn bæjarfélagsins boðaðir til fundar þann 19. maí 1983 til þess að ræða um stofnun starfsmannafélags. Á þennan fund mættu 27 af 39 starfsmönnum bæjarins og teljast þeir stofnfélagar því að fundurinn samþykkti stofnun Starfsmannafélags Ólafsfjarðar, STÓL. Í fyrstu stjórn starfsmannafélagsins voru kosin Guðbjörn Arngrímsson formaður, Ásta Sigurðardóttir ritari, Páll Pálsson gjaldkeri og meðstjórnendur Björk Arngrímsdóttir, Þórhildur Þorsteinsdóttir og Þorfinna Stefánsdóttir. Tilgangurinn með stofnun félagsins var að gera kjarasamning við bæinn og leiðrétta þann launamun sem var á kjörum starfsmanna Ólafsfjarðarbæjar og annarra sambærilegra sveitarfélaga.
Á þessum fundi var stigið stórt skref í launamálum starfsmanna bæjarins því að launakjör starfsmanna hjá Ólafsfjarðarbæ hafa klárlega batnað mikið á þeim 20 sem liðin eru.

Fyrsti kjarasamningurinn skilaði árangri

Fyrsti kjarasamningurinn við Ólafsfjarðarbæ var undirritaður 10. maí 1984 og var gildistími hans frá 1. mars 1984 til 31. mars 1985. Í þeim samningum náðist að semja um nýja grunnröðun handa félagsmönnum í STÓL því að í ljós hafði komið að mikill munur var á grunnröðun hjá Ólafsfjarðarbæ og annarra bæjarfélaga. Í þessari fyrstu lotu fékk 41 starfsmaður af 44 hækkun og hlýtur það að teljast viðunandi árangur í fyrstu tilraun. Í þeim samningi var líka viðurkenning á Starfsmannafélagi Ólafsfjarðar sem samningsaðila við Ólafsfjarðarbæ og í dag er STÓL eina stéttarfélagið sem bærinn semur við fyrir utan sérgreinafélög eins og Félag íslenskra leikskólakennara.

Á fyrstu árum félagsins voru samningar gerðir heima í héraði og voru samningamenn félagsins í góðum tengslum við viðsemjendur sína. Þá var samið á öllum tímum ársins og engu skipti hvort það væri gert á sumri eða jólaföstu.
Þegar félagið var í mótun var að mörgu að hyggja fyrir lítt vana samningamenn og allar stundir notaðar, enda var gerður nokkuð góður kjarasamningur þegar skrifað var undir 8. janúar 1986. Meðal annars náðust inn í samninginn starfsaldurshækkanir og orlofsheimilagjald var hækkað í 0,8%.

Bæjarstjórn Ólafsfjarðar var framan af eini viðsemjandi STÓL en frá árinu 1987 hafa viðsemjendur verið Launanefnd sveitarfélaga fyrir hönd Ólafsfjarðarbæjar og Hornbrekka, heimili aldraðra.

Núna fara samningar að mestu leyti fram utan Ólafsfjarðar og hafa gert það síðan Ólafsfjarðarbær, og seinna Hornbrekka, ákváðu að láta Launanefnd sveitarfélaga fara með samningamálin fyrir sig. Þetta er þróun sem STÓL ræður ekki við en félagið er hins vegar í samstarfi við nokkur önnur starfsmannafélög sem eins er ástatt fyrir.

Orlof og starfsmenntun

STÓL þurfti að hafa mikið fyrir því að stofna orlofssjóð á sínum tíma en hækkun á orlofsprósentunni gerði félaginu kleift að kaupa afnot af orlofshúsi í Munaðarnesi árið 1989 með Dalvíkingum. Árið 1997 keyptu nágrannafélögin á Dalvík og í Ólafsfirði saman orlofshús austur í Úlfsstaðaskógi. Orlofshúsin hafa alltaf verið mikið notuð af félagsmönnum og er það vel. Félagið á einnig tjaldvagn til afnota fyrir félagsmenn.
Nokkuð reglulega kemur upp umræða um hvort félagið ætti að kaupa orlofsíbúð í Reykjavík. Það hefur ekki enn þá orðið að veruleika, enda kostar það mikla peninga og framlagið í orlofssjóð er ekki nægilega hátt til að tryggja rekstur hennar. Eitt af því sem náðst hefur í kjarasamning er starfsmenntunarsjóður sem ætlaður er til að auðvelda félagsmönnum að sækja nám og námskeið. Alls hafa 185 félagsmenn fengið styrk á þessum 20 árum, alls tæpar þrjár milljónir.
Verkfallssjóður var stofnaður 1993 á 10 ára afmæli félagsins sem öryggisnet fyrir kjarabaráttu félagsins.

Í stjórn STÓL árið 2004 eru þau Guðbjörn Arngrímsson formaður, Róslaug Gunnlaugsdóttir ritari, Hafdís Jónsdóttir gjaldkeri, Haukur Sigurðsson er varaformaður og Rósa Óskarsdóttir og Fjóla Björgvinsdóttir meðstjórnendur.

Mikill auður í félagsmönnum

Þótt mikið hafi áunnist á þessum 20 árum eru baráttumálin enn þau sömu, það er að greidd séu mannsæmandi laun fyrir þá vinnu sem félagsmenn láta af hendi. Talsvert hefur áunnist í endurmenntun starfsmanna en vilji er til að gera betur í þeim efnum.

Bæjarstarfsmenn sitja ekki við sama borð og aðrir launþegar þegar kemur að viðbótarlífeyrissparnaði og er þar verk að vinna.

Auður hvers félags liggur í félagmönnum. Starfsmannafélag Ólafsfjarðar er í þeim skilningi ríkt félag því að félagsmenn hafa alltaf verið duglegir að sækja fundi og láta skoðanir sínar í ljós. Samstaða meðal starfsmanna bæjarins er nauðsynleg til að hér þróist réttlátt launasamfélag sem gerir starfsmenn ánægða í starfi og bærinn fær á móti betri starfskrafta. Að þessu vill félagið vinna áfram eins og hingað til.

Á aðalfundi félagsins 30. maí 2007 var nafni félagsins breytt í Starfsmannafélag Fjallabyggðar.