Kennimark og nafn

Tilvísun táknmyndarinnar eða kennimarksins er kjölfestan og krafturinn í félaginu (hreyfingin) sem gefur einnig hugmynd um fyrirmyndarskipan eða hugsjónina mynduð af vænghlutanum sem sjá má út úr táknmyndinni. Litirnir sýna pólitíska breidd og víðsýni félagsins með skírskotun í íslensku fánalitina. Ef grannt er skoðað má einnig sjá hluta af bókstafnum "K" sem tengir merkið við heitið sjálft." Höfundur Kristján Kristjánsson auglýsingastofunni Kraftaverk.

 

Við notkun á nafni félagsins skal það ritað með hástöfum og reynt skal að nota orðið í nefnifalli eða eignarfalli. Við stofnun KJALAR stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu var kallað eftir hugmyndum að nafni sem tæki endinguna ... starfsmanna í almannaþjónustu.

Forsagan

Nafnið var einn af dagskrárliðum tveggja daga fundar sem haldinn var í Borgarnesi í febrúar 2004. Fyrir fundinn höfðu fundarmenn fengið það heimaverkefni að koma með tillögur að nafni og í upphafi fundarins voru tillögurnar kynntar. Þær voru: Framtak, Kjarni, Kjölur, Stólpi, Strengur og Styrkur. Milli þess sem menn ræddu um ýmsar hliðar sameiningarinnar æfðu menn beygingar og birtingarmyndir þessara nafna og kom þar ýmislegt skemmtilegt fram. Framtakssemi sumra þótti með eindæmum, aðrir slógu á léttari Strengi og sóttu Styrk í Kjarna málsins en að kvöldi dags var flækjustigið orðið ískyggilega hátt. Ekki var um annað að ræða en kjósa um nafn og full bjartsýni ákváðu fundarmenn að allir skyldu skrifa tvö nöfn á atkvæðaseðilinn. Atkvæði féllu þannig að Kjölur fékk 12 atkvæði, Framtak 10 og Stólpi 10 og hin nöfnin færri. Með það fóru menn að sofa en daginn aftur var kosið milli þessara þriggja nafna. Þá fékk Kjölur 13 atkvæði, Framtak 8 og Stólpi 7. Síðar var það ákveðið að til viðbótar héti félagið ,,stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu" og að KJÖLUR væri alltaf skrifað með hástöfum. En hvernig datt fólki Kjölur í hug? Jú, það var á fundi á Akureyri. Fólkið sem átti að fara til fundarins í Borgarnesi tók hlutverk sitt alvarlega og vildi koma með tillögu að nafni. Andleysið var samt mikið og skáldgyðjan víðsfjarri og svo bættist það við að nafnið mátti helst ekki hafa skírskotun til ákveðinnar sveitar eða deildar innan félagsins. Hvað er þá til ráða? Íslandskortið var lagt á borðið og það fyrsta sem Una Sigurliðadóttir sá er hún leit á kortið var Kjölur og gerði það að tillögu sinni.