Áminning

Hvað er áminning?

Áminning er sérstök ákvörðun sem yfirmaður getur eða skal grípa til þegar starfsmaður hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi eða brotið starfsskyldur sínar á annan hátt. Skal áminning vera á skriflegu formi, til að tryggja sönnun fyrir tilvist og efni áminningar. Þegar kemur að því að veita áminningu getur komið til álita hvaða réttarheimildum áminning byggir á eða getur byggt á og hvaða sjónarmið þurfi að vera uppi við töku slíkrar ákvörðunar.

Ekki gilda sömu reglur fyrir starfsmenn ríkisins og starfsmenn sveitarfélaga. Um starfsmenn ríksins gildja lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1966 en um starfsmenn sveitarfélaga gildir kjarasamningur og ráðningarsamningur, um áminningar. Um málsmeðferð í áminningarferli gilda þó í báðum tilfellum málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Tilefni áminninga

Tilefni áminninga geta verið af ýmsum toga vegna framkomu eða athafna starfsmanns. Sé skoðað ákvæði það sem algengast er í kjarasamningum þeim sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur staðið að, segir: "Ef starfsmaður hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma eða athafnir í því þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu skal vinnuveitandi veita honum skriflega áminningu."

Sjónarmið við áminningu

Áminning er stjórnvaldsákvörðun og því þarf að gæta þess að fylgja ákvæðum í stjórnsýslulögum. Tilefni til áminningar er matskennd ákvörðun og ber því að gæta þess að ákvörðun um áminningu sé í samræmi við stjórnsýslulög og önnur hlutaðeigandi lög ásamt því að eiga sér stoð í þeim. Einnig verða að liggja til grundvallar málefnaleg sjónarmið. Í starfsmannamálum innan sveitarfélags þarf að virða óskrifaðar grunnreglur stjórnsýsluréttarins sem gera þær kröfur að matskenndar ákvarðanir séu byggðar á málefnalegum sjónarmiðum og að stjórnsýsluhættir séu vandaðir.

Grunur um að áminning sé ólögmæt

Hafi stjórnvöld ekki fylgt þeim reglum sem gilda um áminningar getur verið tilefni til að krefjast afturköllunar ákvörðunar eða freista þess að fá hana fellda úr gildi fyrir dómi. Þó nokkur dæmi eru um að ekki hafi verið fylgt þeim formreglum sem gilda um áminningar, s.s. að áminning sé ekki tilkynnt skriflega, ekki komi fram með skýrum hætti hvað sé áminnt fyrir, andmælaréttur hafi ekki verið virtur o.s.frv. Þá eru einnig dæmi um að efnisleg skilyrði hafi ekki verið uppfyllt, s.s. að stjórnvöld geti ekki vísað til neinna reglna sem starfsmaður hafi brotið gegn eða framferðið sé ekki nægilega alvarlegt til að áminning geti átt við. Einnig að tímaleg tengsl við áminningar og atburðar er leiddi til áminningar.

Ítarefni

Kjarasamningur Kjalar við Samband íslenskra sveitarfélaga

Kjarasamningur Kjalar við fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs

Stjórnsýslulög