Aðild að Fræðslusetrinu Starfsmennt

... Starfsmennt byggir á þeirri hugmyndafræði að það sé æskilegt að þjálfa, viðhalda og auka þekkingu starfsmanna til að auka gæði starfseminnar og starfsánægju starfsmanna og stjórnenda þeirra. Mannauðssjóður Kjalar stéttarfélags hefur samið við Fræðslusetrið Starfsmennt um þjónustu við starfsmenn sveitarfélga. Allt sem Fræðslusetrið Starfsmennt bíður upp á gildir nú fyrir alla félagsmenn KJALAR stéttarfélags.

Við kjarasamningagerð árið 2020 þá var Fræðslusetrið Starfsmennt staðfest með grein í kjarasamningi nr. 10.4 í kjarasamningi við ríkið undirritaður 9. mars 2020. Jafnframt var bókun í kjarasamningum við sveitarfélögin þar sem fram kemur vilji þeirra til að gerast aðilar að setrinu sem bíður betri tíma. 

 

Við kjarasamningsgerð árið 2001 var eftirfarandi bókun gerð:
Bókun 1 Aðilar eru sammála um að efla símenntun starfsmanna með það fyrir augum að þeir verði færari til að takast á við sífellt fjölbreyttari verkefni og jafnframt að auka möguleika stofnana á að þróa starfssvið sitt þannig að það samræmist þeim kröfum sem gerðar eru til stofnana á hverjum tíma. Leitað verði samstarfs við önnur stéttarfélög og einstakar stofnanir, til þess að koma á starfstengdum námskeiðum í þessu skyni sem starfsmenn geti sótt án verulegs kostnaðar.

Verði það gert á þann hátt að á samningstímabilinu verði unnið að því að stofna sérstakt ,,Fræðslusetur" í samvinnu við önnur stéttarfélög. Hlutverk þess er að vera hugmyndabanki/umsjónaraðili/framkvæmdaaðili, að meta þörf fyrir fræðslu hjá einstökum stofnunum eða stofnanahópum og að hafa frumkvæði að því að búa til námskeið sem svara þeirri þörf. Sérstakt framlag að upphæð kr. 15.000.000 renni til þessa verkefnis þegar fengist hafa a.m.k. þrír samstarfsaðilar. Auk þess skal greiða árin 2002, 2003 og 2004 framlag er nema skal 0,15% af heildarlaunum. Þróunar- og símenntunarsjóður skal greiða til ,,Fræðslusetursins" samkvæmt reglum sjóðsins á hverjum tíma.

Í kjarasamningi sem gerður var vorið 2005 er eftirfarandi bókun:

Bókun 3 Aðilar eru sammála um að greiða áfram sérstakt framlag til Fræðslusetursins Starfsmenntar. Framlag þetta skal nema 0,25% af heildarlaunum frá 1. febrúar 2005 til aprílloka 2008. Fræðslusetrið verður áfram vettvangur samstarfs stéttarfélaga og ríkisins og skal vera opið fyrir samstarfi við fleiri félög en nú standa að því.

Í kjarasamningum 2011 og 2016 er bókun sem er samhljóma um áframhaldandi starfsemi Starfsmenntar.