Ýmsar spurningar

Á þessari síðu er að finna ýmsar upplýsingar um réttindi og skyldur á vinnumarkaði, s.s. um rétt til launa í veikindum, orlofsrétt, uppsagnir o.fl. sem borist hafa félaginu.

Finnir þú ekki svar við þinni spurnignu hér á síðunni getur þú sent okkur fyrirspurn á mínum síðum eða á kjolur(hjá)kjolur.is

Hvenær á að greiða staðgengilslaun?

Aðilar eru um það sammála, að eigi þurfi að jafnaði að fela starfsmanni sérstaklega að gegna starfi yfirmanns nema fjarvera yfirmannsins vari lengur en 5 vinnudaga samfellt.

Sé aðalstarf starfsmannsins launað sem staðgengilsstarf yfirmanns, ber starfsmanninum laun yfirmannsins, án persónubundinna launamyndunarþátta, gegni hann starfi hans lengur en 4 vikur samfellt eða hafi hann gegnt starfi yfirmanns lengur en 6 vikur á hverjum 12 mánuðum. Laun yfirmanns greiðist einungis frá lokum nefndra 4 eða 6 vikna. Taki yfirmaður ekki laun samkvæmt kjarasamningi þessum skal starfsmaður fá þau laun sem samsvara launum yfirmannsins án persónubundinna launamyndunarþátta. Skrár skulu vera til yfir þá sem eru launaðir staðgenglar skv. starfsmati. Formlega skipaður staðgengill yfirmanns sem sinnir skyldustörfum hans að fullu í hans fjarvist, raðast 2 launaflokkum hærra en ella, enda hafi ekki verið tekið tillit til þess í starfsmati. 

Er heimilt að fresta orlofi milli ára?

Samkvæmt orlofslögum nr. 30/1987 er framsal orlofslauna og flutningur þeirra milli orlofsára óheimill. Hafi starfsmaður sem átti gjaldfallið orlof þann 1. maí 2020, allt að 60 dögum, ekki nýtt þá daga fyrir 30. apríl 2023, falla þeir dagar niður sem eftir standa.

Hvernig á að ganga frá launalausu leyfi starfsmanns?

Mikilvægt er að ganga skriflega frá launalausu leyfi þannig að það sé ljóst hvað var ákveðið og að auðvelt sé að færa sönnur á að það ef til ágreinings kemur.

Hvernig er greiðsla fæðisfé í veikindum, orlofi og fæðingarorlofi?

Fæðispeningar greiðast fyrir hvern vinnuskyldudag, þ.e. hvern dag sem mætt er til vinnu, að uppfylltum skilyrðum í kjarasamningi.

Fæðispeningar falla niður í veikindum, fæðingarorlofi, orlofi og öðrum fjarvistum þar sem um er að ræða kostnaðargreiðslu en ekki launagreiðslu.