Veikindi í orlofi og orlofstaka

 

Veikist starfsmaður í orlofi það alvarlega að hann teljist ekki geta notið orlofsins, telst sá tími sem veikindunum nemur ekki til orlofs, enda sanni starfsmaður með læknisvottorði að hann geti ekki notið orlofs.

Tilkynning um veikindi

Tilkynna skal yfirmanni án tafar með sannanlegum hætti um veikindi ef um veikindi eða slys í orlofi er að ræða og þau síðan staðfest með læknisvottorði. Hafi starfsmaður ekki komist í orlof vegna veikinda á hann rétt á að taka orlofið síðar, eftir atvikum utan sumarorlofstímabils.

Er heimilt að fresta orlofi milli ára?

Samkvæmt orlofslögum nr. 30/1987 er framsal orlofslauna og flutningur þeirra milli orlofsára óheimill. Hafi starfsmaður sem átti gjaldfallið orlof þann 1. maí 2020, allt að 60 dögum, ekki nýtt þá daga fyrir 30. apríl 2023, falla þeir dagar niður sem eftir standa.

Þó er heimilt að flytja orlof til næsta árs samkvæmt kjarasamningum við ríkið ef starfsmaður gat ekki tekið orlof vegna skriflegrar beiðni yfirmanns síns. Þá geta starfsmönnum sem voru annað hvort veikir eða í fæðingar- og foreldraorlofi á sumarorlofstímabilinu geymt sitt orlof til næsta árs, óháð því hvort þeir eru starfsmenn ríkisins eða sveitarfélaga.

Í kjarasamningum aðildarfélaga BSRB árið 2020 var samið um breytingar á orlofskafla kjarasamninga. Þar var öllum tryggður 30 daga orlofsréttur, óháð aldri og starfsaldri. Meðal þeirra markmiða sem bjuggu að baki breytingunni var að tryggja að starfsfólk fái notið orlofs til að ná hvíld og endurheimt en safni orlofsdögum ekki upp. Með breytingunum var því starfsfólki sem átti uppsafnað orlof á þeim tíma gefinn þriggja ára aðlögunartími, til 30. apríl 2023, til að nýta sína uppsöfnuðu orlofsdaga, að hámarki 60 talsins, þrátt fyrir bann við flutningi milli ára.

Fljótlega eftir gerð kjarasamninganna breyttust aðstæður á vinnumarkaði vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og ein af birtingarmyndum þess var óhóflegt álag á starfsfólk, undirmönnun stofnana og mun minna svigrúm fyrir fólk til þess að fara í orlof og vinna á uppsöfnuðu orlofi. Af þeim sökum náðu mörg hver ekki að vinna upp sitt uppsafnaða orlof á þessum þremur árum og einhver höfðu jafnvel safnað upp enn fleiri orlofsdögum.

Með hliðsjón af þessu var tekin ákvörðun, í samráði við opinbera atvinnurekendur, að fresta niðurfellingu orlofsdaga. Í tilfelli starfsfólks ríkis og Reykjavíkurborgar var niðurfellingu verið frestað til 30. apríl 2024 en Samband íslenskra sveitarfélaga frestaði niðurfellingu um ótilgreindan tíma og fór þá leið að láta stjórnendur innan sveitarfélaga útbúa skriflegt samkomulag við starfsfólk sitt um töku uppsafnaðs orlofs.

Ef starfsmaður er kallaður til vinnu í orlofi

Ef starfsmaður er kallaður til vinnu í orlofi er valkvætt að:

    • Greiða starfsmanni yfirvinnu fyrir þá vinnu sem unnin á orlofstímanum en þá lengist orlof starfsmanns ekki.
      Eða
    • Starfsmaður fær hefðbundna laun fyrir vinnu sín á orlofstímanum og orlofið lengist sem unnum tíma í orlofi nemur.
    • Það sem báðar leiðir eru færar er best fyrir starfsmann að ganga frá því fyrir fram hvernig vinna á orlofstíma er gerð upp.

Uppgjör

Geti starfsmaður ekki vegna veikinda lokið orlofstöku fyrir 31. maí næstan á eftir, á hann rétt á fá orlofslaunin greidd. Sjá 6. gr. orlofslaga. Ef orlofstaka er fyrirhuguð í beinu framhaldi af veikindum kann að vera ráðlegt að krefja starfsmann um læknisvottorð þannig að ljóst sé hvort hann hafi náð fullri starfshæfni eða hafi a.m.k. heilsu til að njóta orlofs. Þetta á einkum við þegar veikindi hafa staðið lengur en í einn mánuð. Félagsmenn sem eru í "hlutaveikindum", þ.e. þá sem vinna skert starf samkvæmt læknisráði og með leyfi forstöðumanns. Heimildin á því ekki við um þann tíma þegar starfsmaður er í fríi/leyfi frá störfum.

Þetta þarf að hafa í huga ef sumarorlofstími er framundan því að starfsmaður getur ekki talist að hálfu veikur og hálfu frískur í orlofi. Fari starfsmaður sem verið hefur í hlutaveikindum í frí telst það að fullu til orlofstöku nema að læknir votti að starfsmaður geti ekki notið orlofs en þá telst fríið að fullu til veikinda. Hafi frí það sem starfsmaður tók verið metið sem orlofstaka og hann hefur ekki fulla starfsorku að loknu orlofi þykir rétt að halda orlofstímabilinu fyrir utan 12 mánaða viðmiðunartímann við talningu veikindadaga samkvæmt kjarasamningi - sjá t.d. grein 12.2.1 í kjarasamningi.

Sjá grein 4.6 um veikindi í orlofi og 12. kafla um rétt starfsmanna vegna veikinda og slysa í kjarasamningi KJALAR við sveitarfélögin og sambærilegar greinar.

Taka orlofs eftir að veikindum í orlofi lýkur

Getur starfsmaður þá krafist orlofs á öðrum tíma og skal orlofið ákveðið í samráði atvinnurekanda við starfsmanninn skv. 5. gr. en þó eins fljótt og unnt er eftir að veikindunum lýkur.