Veikindi í orlofi

 

Veikist starfsmaður í orlofi það alvarlega að hann teljist ekki geta notið orlofsins, telst sá tími sem veikindunum nemur ekki til orlofs, enda sanni starfsmaður með læknisvottorði að hann geti ekki notið orlofs.

Tilkynning um veikindi

Tilkynna skal yfirmanni án tafar með sannanlegum hætti um veikindi ef um veikindi eða slys í orlofi er að ræða og þau síðan staðfest með læknisvottorði. Hafi starfsmaður ekki komist í orlof vegna veikinda á hann rétt á að taka orlofið síðar, eftir atvikum utan sumarorlofstímabils.

Uppgjör

Geti starfsmaður ekki vegna veikinda lokið orlofstöku fyrir 31. maí næstan á eftir, á hann rétt á fá orlofslaunin greidd. Sjá 6. gr. orlofslaga. Ef orlofstaka er fyrirhuguð í beinu framhaldi af veikindum kann að vera ráðlegt að krefja starfsmann um læknisvottorð þannig að ljóst sé hvort hann hafi náð fullri starfshæfni eða hafi a.m.k. heilsu til að njóta orlofs. Þetta á einkum við þegar veikindi hafa staðið lengur en í einn mánuð. Félagsmenn sem eru í "hlutaveikindum", þ.e. þá sem vinna skert starf samkvæmt læknisráði og með leyfi forstöðumanns. Heimildin á því ekki við um þann tíma þegar starfsmaður er í fríi/leyfi frá störfum.

Þetta þarf að hafa í huga ef sumarorlofstími er framundan því að starfsmaður getur ekki talist að hálfu veikur og hálfu frískur í orlofi. Fari starfsmaður sem verið hefur í hlutaveikindum í frí telst það að fullu til orlofstöku nema að læknir votti að starfsmaður geti ekki notið orlofs en þá telst fríið að fullu til veikinda. Hafi frí það sem starfsmaður tók verið metið sem orlofstaka og hann hefur ekki fulla starfsorku að loknu orlofi þykir rétt að halda orlofstímabilinu fyrir utan 12 mánaða viðmiðunartímann við talningu veikindadaga samkvæmt kjarasamningi - sjá t.d. grein 12.2.1 í kjarasamningi.

Sjá grein 4.6 um veikindi í orlofi og 12. kafla um rétt starfsmanna vegna veikinda og slysa í kjarasamningi KJALAR við sveitarfélögin og sambærilegar greinar.

Taka orlofs eftir að veikindum í orlofi lýkur

Getur starfsmaður þá krafist orlofs á öðrum tíma og skal orlofið ákveðið í samráði atvinnurekanda við starfsmanninn skv. 5. gr. en þó eins fljótt og unnt er eftir að veikindunum lýkur.