Hvað gerir Kjölur?

Kjölur er stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu sem varð til við sameiningu Félags opinberra starfsmanna í Húnavatnssýslum, Starfsmannafélags Akureyrarbæjar, Starfsmannafélags Borgarbyggðar, Starfsmannafélags Dalvíkurbyggðar og Starfsmannafélags Siglufjarðarkaupstaðar, á fundi í Munaðarnesi 15. maí 2004. Þann 17. febrúar 2014 var samþykkt á aðalfundi Starfsmannafélags Skagafjarðar að sameinast Kili stéttarfélagi og tók sameiningin strax gildi.

KJÖLUR stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu er aðildarfélag BSRB. 

Tilgangur félagsins er að vera í forsvari fyrir einstaklinga við gerð kjarasamninga og vinna að öðrum hagsmunamálum, vernda réttindi félaganna og beita sér gegn hvers konar misrétti í launagreiðslum og starfskjörum. Félagsmenn eru um 1050. Konur eru 70% félagsmanna.
Félagið skiptist í tvo hluta, opinberan hluta og almennan hluta.

Til opinbera hlutans teljast: 

 •  Félagsmenn í þjónustu ríkisins og sveitarfélögum sem ekki eiga aðild að öðru stéttarfélag
 •  Félagsmenn í vinnu hjá sjálfseignarstofnunum sem starfa í almannaþágu samkvæmt lögum

 • Þessir félagsmenn hafa réttindi og skyldur samkvæmt lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þar er m.a. fjallað um sérstöðu opinberra starfsmanna, samningsrétt stéttarfélagsins og verkfallsrétt. 

Til almenna hlutans teljast:

 •  Félagsmenn sem vinna hjá fyrirtækjum sem starfa í almannaþágu og voru áður stofnanir sveitarfélaga og heyra undir lög nr. 80/1938, lög um stéttarfélög og vinnudeilur

Samkvæmt lögum Kjalar verða þeir sem taka laun eftir kjarasamningi þess sjálfkrafa félagsmenn og greiða gjald til þess sem er 1% af öllum launum. Ef viðkomandi vill ekki vera í félaginu getur hann sagt sig úr því, en þarf eftir sem áður að greiða gjald til þess samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Félagsmaður Kjalar stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu, hefur m.a. eftirfarandi réttindi með veru sinni í félaginu:

 • haft áhrif á umhverfi þitt með að taka þátt í félagsstarfinu
 • tekið þátt í námskeiðahaldi á vegum félagsins,
 • komið með ábendingar um starfsemi félagsins til stjórnar félagsins
 • nýtur kjarasamninga félagsins
 • nýtur stofnanasamnings sem gerður er á viðkomandi stofnun (ríkið)
 • nýtur veikindaréttar og fæðingarorlofs
 • á rétt á úthlutun úr styrktarsjóði í fæðingarorlofi 
 • á rétt á að kjósa trúnaðarmann og stjórn
 • á rétt á að dvelja í orlofshúsum félagsins
 • á rétt á að taka þátt í því félagsstarfi sem boðið er upp á
 • á rétt á úthlutun ú fræðslusjóði Kjalar
 • á rétt á úthlutun úr styrktarsjóði BSRB
 • á rétt á starfsnámi á vegum samningsaðila
 • á sér málsvara í réttinda- og álitamálum
 • vinnur sér inn réttindi hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins eða Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda eða Lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga
 • á rétt á framlagi frá atvinnurekanda leggi hann til viðbótarframlag í séreignarlífeyrissjóð

  Svo er alltaf heitt kaffi á könnunni ef þú á leið framhjá skrifstofu okkar!