Foreldraorlof

Foreldraorlofið er vannýttur réttur.

Leyfinu er ætlað til umönnunar barns starfsmanns og veitir foreldri sjálfstæðan rétt til að taka 13 vikna launalaust leyfi eftir að hafa starfað samfellt í sex mánuði hjá sama vinnuveitanda. Rétturinn fellur niður þegar barnið nær átta ára aldri. Lögin eru ekki afturvirk nema að hluta og gilda fyrir foreldra barna sem fædd eru, ættleidd eða tekin í fóstur 1. janúar 1998 eða síðar. Sjálfstæður réttur foreldris til foreldraorlofs án launa í 13 vikur. Gildir vegna barna sem eru fædd 1. janúar 1998 eða síðar. Heimilt er að taka það í einu lagi eða eftir samkomulagi við atvinnurekanda. Fellur niður við átta ára aldur barns. Heimilt er að taka foreldraorlofið í einu lagi eða skipta því og er heimilt að hver hluti þess vari skemur en í viku.

Eigi starfsmaður rétt á lengra foreldraorlofi en 13 vikur, þ.e. eigi hann fleiri en eitt barn undir 8 ára aldri, getur hann þó ekki sótt um lengra foreldraorlof en 13 vikur á einu og sama árinu nema til komi sérstakt samþykki atvinnurekanda. Rétturinn nær einnig til forsjárlausra foreldra. Sá réttur er ekki skilyrtur samþykki þess foreldris sem fer með forsjá eins og rétturinn til fæðingarorlofs. Í greinargerðinni með frumvarpinu segir að ástæðan sé meðal annars sú að heimilt er að taka foreldraorlof skemur en eina viku og taka foreldraorlofs forsjárlauss foreldris því vel samræmanlegt þeim umgengnisrétti sem það á rétt á.

Starfsmaður þarf að tilkynna atvinnurekanda með minnst sex vikna fyrirvara að hann ætli að nýta sér rétt sinn til foreldraorlofs. Tilkynning þarf að vera skrifleg og í henni á að koma fram upphafsdagur, lengd og tilhögun orlofs. Atvinnurekandi á að árita á tilkynninguna hvaða dag hún er móttekin og afhenda starfsmanni síðan afrit hennar. Atvinnurekandinn þarf að skrá töku foreldraorlofs starfsmanns þannig að starfsmaður geti fengið vottorð um fjölda tekinna foreldraorlofsdaga óski hann þess. Atvinnurekandi getur að höfðu samráði við starfsmann ákveðið breytta tilhögun á töku foreldraorlofs. Til þess þarf hann að hafa gildar ástæður, t.d. að álagstími fari í hönd þegar starfsmaður hyggst taka foreldraorlof eða ef ekki tekst að finna staðgengil ef þess er þörf. Atvinnurekandi þarf að tilkynna breytingarnar formlega innan viku frá móttöku tilkynningar starfsmanns um foreldraorlof. Í tilkynningunni þurfa að koma fram ástæður sem liggja að baki breyttri tilhögun og ef um frestun er að ræða þarf að taka fram hversu lengi hún varir. Sú frestun getur aldrei varað lengur en í sex mánuði nema starfsmaður samþykki það.
Atvinnurekandi getur ekki frestað foreldraorlofi ef barn veikist eða ef það er tekið í beinu framhaldi af fæðingarorlofi. Þá framlengist réttur til töku foreldraorlofs um eitt ár ef starfsmaður þarf að fresta því á áttunda ári barnsins.

Ráðningarsambandi starfsmanns og atvinnurekanda er viðhaldið á orlofstímanum. Óheimilt er að segja starfsmanni upp vegna þess að hann hefur tilkynnt um töku foreldraorlofs eða þegar hann er í foreldraorlofi. Starfsmanni er tryggður réttur til að hverfa aftur að starfi sínu að loknu orlofinu. Sé þess ekki kostur á hann rétt á sambærilegu starfi hjá atvinnurekandanum í samræmi við ráðningarsamninginn. Brjóti atvinnurekandi gegn ákvæðum laga um fæðingar- og foreldraorlof er hann skaðabótaskyldur.

Sjá Lög um fæðingar- og foreldraorlof