Áfallasjóður

Áfallasjóður mætir meiriháttar áföllum sem félagsmenn kunna að verða fyrir, s.s. vegna veikinda, andláts, eldsvoða eða annarra slíkra ófara. Sjóðurinn hefur einnig heimild til að styðja líknarverkefni sem talin eru stuðla að almannaheill. 


 

Samþykktir Áfallasjóðs

1. grein
Sjóðurinn heitir Áfallasjóður Kjalar stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu og er eign þess. Sjóðurinn starfar eftir því skipulagi og markmiði sem segir í samþykktum þessum. Heimili sjóðsins og varnaþing er á Akureyri.

2. grein
Styrkhæfir eða lánshæfir eru þeir sem hafa verið félagar í Kili síðustu 12 mánuði í 50% starfi eða meira.

3. grein
Hlutverk sjóðsins er að aðstoða félagsmenn með beinum styrkjum eða vaxtalausum lánum í allt að 6 mánuði ef þeir verða fyrir miklum áföllum svo sem vegna veikinda, andláts, eldsvoða eða annarra slíkra ófara. Jafnframt hefur sjóðurinn heimild til að láta fé renna til líknarmála sem sjóðsstjórn telur þjóna hagsmunum félagsmanna og stuðli að almannaheill.

4. grein
Tekjur sjóðsins eru þessar:

  • a.   Mánaðarlegt framlag úr félagssjóði skv. ákvörðun aðalfundar hverju sinni.
  • b.   Vaxtatekjur.
  • c.   Gjafir, áheit, minningarkort og þess háttar.


5. grein
Sjóðurinn skal ávaxtaður á tryggan hátt og leitast við að koma í veg fyrir afföll hans.

6. grein
Stjórn sjóðsins skipa þrír menn úr stjórn Kjalar og einn til vara, til þriggja ára í senn en formaður félagsins er sjálfkjörinn.
Stjórn sjóðsins setur úthlutunarreglur og ákveður upphæð styrkja og lána. Hún gerir árlega reikninga yfir tekjur og gjöld. Reikningsárið er almanaksárið. Endurskoðendur félagsins skulu yfirfara reikninga sjóðsins og árita þá.

7. grein 
Samþykktum þessum má aðeins breyta á aðalfundi Kjalar.
Samþykkt þessi var fyrst samþykkt á aðalfundi STAK 28. mars 1995 með stofnframlagi frá félagssjóði STAK. Breyting við 3. grein samþykkt á aðalfundi 18. mars 2003. Þannig samþykkt á framhaldsaðalfundi - sameiningarfundi Kjalar stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu þann 15. maí 2004.