Kosið um frekari verkföll um allt land

Í gær þann 16. maí hófst atkvæðagreiðsla um enn umfangsmeiri verkfallsaðgerðir vegna kjaradeilu Kjalar og 10 annara aðildarfélaga BSRB við Samband íslenskra sveitarfélaga. 

Samband íslenskra sveitarfélaga neitar enn að verða við þeirri sjálfsögðu kröfu að leiðrétta augljósa mismunun á launum starfsfólks sveitarfélaga sem heyrir undir mismunandi kjarasamninga. Á mannamáli þýðir það að félagar Kjalar eiga að fá að meðaltali 25% lægri launahækkun og verða af um 140.000 krónum sem aðrir hafa þegar fengið í launaumslagið. Um er að ræða fólk sem vinnur hlið við hlið, jafnvel í sömu starfsheitum innan sömu stofnana sveitarfélaga; t.d innan leikskóla, grunnskóla, heimila fatlaðs fólks, íþróttamannvirkja og áhaldahúsa.

Greidd verða atkvæði um verkföll á tilteknum vinnustöðum í eftirtöldum sveitarfélögum, Akureyrarbæ, Borgarbyggð Dalvíkurbyggð, Fjallabyggð, Grundarfjarðarbæ, Ísafjarðarbæ, Skagafirði, Stykkishólmi og Snæfellsbæ. Athugið að allt félagsfólk Kjalar í ofannefndum sveitarfélögum hefur atkvæðisrétt hvort sem verkföll eru fyrirhuguð á þeirra vinnustað eða ekki. Vinnustaðirnir sem um ræðir eru tilgreindir á kjörseðlunum. Atkvæðagreiðslan fer fram rafrænt og hefur borist félögum í tölvupósti en einnig er hægt að opna hana hér.

Við hvetjum félagsfólk okkar í ofangreindum sveitarfélögum til að kjósa til að tryggja starfsfólki félaga BSRB hjá sveitarfélögunum sanngjarnar launahækkanir. Þitt atkvæði skiptir máli.

Niðurstöður atkvæðagreiðslna munu liggja fyrir í hádeginu á föstudag og verða kynntar í kjölfarið.

Myndrænt yfirlit yfir samþykktar aðgerðir má finna hér.