Kjölfesta komin í dreifingu

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, ræðir styttingu vinnuvikunnar
Tilögur til aðalfundar
Bera nú starfsheitið heilbrigðisgagnafræðingar -  Barbara Arna Hjálmarsdóttir
Starfið mitt:
Arnar Símonarson
Jóhann Thorarinsson
Félagsstarfið á Teams á Covid-ári!
Fimm ára endurskoðun starfa í starfsmati

 

Lífsgæði aukast með styttri vinnuviku

Rætt við Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formann BSRB um framkvæmd vinnutímastyttingarinnar

Kjarasamningar opinberra starfsmanna á síðasta ári munu skipa sérstakan sess í sögunni þar sem með þeim var stigið skref til styttingar vinnuvikunnar sem verið hafði baráttumál BSRB félaga um áratuga skeið. „Ég verð að segja fyrir mitt leyti að það hefur komið skemmtilega á óvart að tímalínan sem sett var um útfærslu vinnuvikustyttingarinnar hefur í aðalatriðum staðist. Við höfum vissulega lent í brekkum í þessari vinnu en samt engum sem voru óvæntar né óyfirstíganlegar,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Betri heilsa og meira jafnvægi vinnu og einkalífs
Dagvinnufólk er stærsti hópur þeirra félagsmanna BSRB sem vinnutímastyttingin nær til og tók hún gildi fyrir þann hóp um síðustu áramót. Í kjarasamningsgerðinni var ákveðið að gefa lengri undirbúningstíma fyrir vaktavinnufólkið en hjá þeim hópi tekur vinnutímabreytingin gildi þann 1. maí næstkomandi.

Sonja Ýr segir rauða þráðinn í samkomulaginu um styttingu vinnuvikunnar að auka lífsgæði fólks með því að stuðla að betri heilsu og meira jafnvægi milli vinnu og einkalífs. „Undanfari vinnuvikustyttingarinnar inni á vinnustöðunum er í öllum tilfellum umbótasamtal sem þarf að eiga sér stað um hvernig þessum markmiðum verður best náð án þess að það bitni á afköstum. Ástæðan fyrir því að við gáfum lengri tíma fyrir vaktavinnuhópinn var sú að þar þarf að gera meiri breytingar en hjá dagvinnufólkinu. Styttingin í dagvinnu byggðist á því að hægt væri að ná gagnkvæmum ávinningi með því að nýta vinnutímann betur, ræða leiðir að markmiðinu og ákveða útfærsluna. Á vinnustöðunum er mjög mismunandi hvaða verkefnum er verið að sinna og með hvaða hætti og þess vegna var best að starfsfólkið hefði aðkomu að því hvernig vinnulaginu yrði breytt til að ná heildarmarkmiðunum með vinnuvikustyttingunni fram. Til okkar berast staðfestingar á því þegar umbótasamtölunum er lokið og almennt teljum við að framkvæmd breytinganna um áramótin hafi gengið nokkuð vel fyrir sig,“ segir Sonja Ýr og bætir við að hún verði vör við mikla ánægju dagvinnufólks með breytingarnar.

„Undanfari vinnuvikustyttingarinnar í kjarasamningum voru tilraunaverkefni hjá ríkinu og Reykjavíkurborg og mér finnst þau viðbrögð sem ég hef fengið á síðustu vikum ríma vel við reynsluna sem þar fékkst á sínum tíma. Margir tala um að þeir upplifi aukin lífsgæði sem felist í vinnutímastyttingunni og það er enginn vafi í mínum huga að þetta er gríðarlega mikilvæg breyting fyrir okkar fólk,“ segir hún.




Ólík nálgun hjá ríki og sveitarfélögum
Miðað við þær tilkynningar sem BSRB höfðu borist í byrjun marsmánaðar stytta 75% stofnana hjá ríkinu vinnuvikuna niður í 36 stundir, 20% fara blandaða leið og 5% fara í lágmarksstyttingu. Hjá Reykjavíkurborg eru nær allir vinnustaðir búnir að stytta vinnuvikuna í 36 stundir á viku. Flestar stofnanir sem ekki fóru strax í hámarksstyttingu eru að skoða næstu skref og markmiðið er að fara í 36 stundir.

„Hins vegar eru tölurnar talsvert aðrar hjá sveitarfélögunum, öðrum en Reykjavíkurborg, hverjar sem ástæðurnar eru. Lengi vel var sá misskilningur uppi hjá sveitarfélögunum að matarhlé og kaffitímar hafi verið seld upp í vinnutímastyttinguna sem auðvitað er ekki rétt. Starfsmenn þurfa áfram hlé frá störfum, enda stórt vinnuverndarmál. Hugsunin var að þar sem það er hægt séu hlé ekki tímasett sérstaklega heldur séu teknar pásur til að borða eða grípa sér kaffibolla þegar það hentar miðað við þau verkefni sem unnið er að. Fjölmargir vinna hins vegar þannig störf að það þarf að leysa þá af eða tryggja þeim hlé með öðrum hætti. Það á að vera hluti af samtalinu sem er tekið á vinnustaðnum hvernig eigi að haga hléum út frá því hvernig starfsemin er og gæta þess að fólk fái nauðsynlega hvíld frá störfum,“ segir Sonja Ýr.

Stór áfangi fyrir vaktavinnufólkið
Mikil undirbúningsvinna hefur staðið yfir að undanförnu vegna gildistöku vinnuvikustyttingar hjá vaktavinnufólki þann 1. maí. Sonja Ýr segir að margt spili inn í þessa mynd; ólíkir vinnustaðir, ólík kerfi sem haldi utan um vinnutímaskráningu og margt fleira. Markmiðið sé engu að síður nákvæmlega það sama fyrir þennan hóp og dagvinnufólkið, þ.e. betri heilsa starfsfólks, aukið öryggi og meira jafnvægi milli vinnu og einkalífs.

„Þegar nær dregur tímasetningunni 1. maí mun vaktavinnufólkið geta mátað sig inn í kerfið og séð hvernig styttingin kemur út í hverju og einu tilviki. Fyrir þennan hóp verður vinnuvikan stytt niður í 36 stundir og vitað er að breytingin mun kalla á meiri mannskap á vaktavinnustöðunum. Sú krafa okkar að 80% starf vaktavinnufólks jafngildi 100% launum var viðurkennd með því að stytta vinnuviku þessa fólks niður í 36 stundir vegna þess að það er möguleiki á enn frekari styttingu eða niður í 32 stundir fyrir þá sem ganga þyngstu vaktirnar. Við erum því að ná mjög stóru takmarki hjá vaktavinnustarfsfólkinu okkar,“ segir Sonja Ýr.

Umbreyting vinnumarkaðarins eftir hálfa öld
Lögin um 40 stunda vinnuviku hafa verið í gildi frá árinu 1971 eða í rétta hálfa öld. Sonja Ýr segir að það sé söguleg stund nú þegar loks sé hreyft við þessu kerfi.

„Við tölum sjálf um fyrstu skrefin í hálfa öld í átt að breyttum vinnutíma en aðrir vilja ganga enn lengra og segja þetta stærstu tíðindin á íslenskum vinnumarkaði frá setningu vökulaganna fyrir 100 árum. Í öllu falli eru þetta tímamót á vinnumarkaði og breyting á vinnumenningu sem klárlega mun marka framtíðina. Ég á ekki von á öðru en þetta sé upphafið á víðtækari framþróun á vinnumarkaði enda eru engin vísindaleg rök að baki því að vinnuvika skuli vera 40 klukkustundir. Við höfum líka tölur sem sýna okkur skýrt að sum störf er ekki hægt að vinna í 40 stundir á viku án þess að starfsfólkið gangi á heilsu sína. Þess vegna er svo mikilvægt að við förum í þessar umbætur á vinnumarkaðnum. Allar rannsóknir sýna hversu slæm áhrif mikið álag í vaktavinnu hefur á heilsu fólks og ef ég ætti að velja eitt atriði umfram önnur af markmiðum með vinnutímastyttingunni þá met ég ávinninginn fyrir heilsu fólks mest,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.