- Kjarasamningar
- Styrkir
- Orlofsmál
- Um Kjöl
Nýlega féll dómur í Félagsdómi þar sem viðurkennd var krafa Kjalar fyrir hönd félagsmanns þess að honum yrði greiddur ferðakostnaður vegna ferða til og frá vinnu. Í kjarasamningi segir að hefjist vinnutími starfsmanns eða hann er kallaður til vinnu á þeim tíma sem almenningsvagnar ganga ekki skuli honum séð fyrir ferð eða greiddur ferðakostnaður. Umræddur félagsmaður bjó á Þingeyri en starfaði hjá Ísafjarðarbæ. Kjölur taldi félagsmann sinn eiga skýlausan rétt til greiðslu ferðakostnaðar og var það að lokum samþykkt í samstarfsnefnd aðila en þá taldi Ísafjarðarbær sér heimilt að greiða samkvæmt kílómetragjaldi Sjúkratrygginga Íslands en ekki samkvæmt ákvörðun ferðakostnaðarnefndar ríkisins. Kjölur mótmælti þessu og stefndi málinu fyrir Félagsdóm.
Félagsdómur sagði ákvæði kjarasamnings um ferðakostnað starfsmanna ekki vísa til annarra viðmiða en ákvörðunar ferðakostnaðarnefndar ríkisins og því ekki unnt að túlka ákvæði um ferðakostnað með öðrum hætti en þeim að um kílómetragjald gildi ákvörðun nefndarinnar. Af þeim sökum var fallist á kröfu Kjalar og ber Ísafjarðarbæ að leiðrétta greiðslur sínar til starfsmanns síns.
Dóminn má nálgast hér.