Fagnám í umönnun fatlaðra - vottað af Menntamálastofnun

Námskráin Fagnám í umönnun fatlaðra hefur hlotið vottun Menntamálastofnunar. Námið var upphaflega þróað af Fræðslusetrinu Starfsmennt árið 2002 í samstarfi við fjölda hagsmunaðila og gekk undir heitinu Starfsnám stuðningsfulltrúa. Það nafn þótt hins vegar of almennt og var þess vegna breytt til að endurspegla betur innihald þess. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sá um endurskoðun námsins í samvinnu við Starfsmennt.

Markmið með vottuninni er að stuðla að aukinni viðurkenningu náms sem fer fram utan formlega skólakerfisins og tryggja gæði og gegnsæi námstilboða í framhaldsfræðslu. Með vottun er staðfest að námið uppfylli kröfur um skipulag, framsetningu viðmiða og námsmat. Í vottuninni felst jafnframt að viðkomandi nám hefur verið tengt við hæfniþrep skv. íslenska hæfnirammanum. Fagnám í umönnun fatlaðra spannar 324 klukkustundir og er mögulegt er að meta það til 16 eininga á framhaldsskólastigi.

Einnig að auka færni og þekkingu námsmanna á aðstæðum og þörfum fatlaðs fólks og er það ætlað þeim sem starfa eða vilja starfa við umönnun fatlaðra. Námið getur einnig hentað þeim sem starfa í þjónustu við aldraða og sjúka og fyrir þá sem vinna með börnum og unglingum í vanda.