Nýársávarp formanns Kjalar stéttarfélags

Arna Jakobína Björnsdóttir formaður Kjalar á 1. maí 2025
Arna Jakobína Björnsdóttir formaður Kjalar á 1. maí 2025

Kæru félagar,

Gleðilegt nýtt ár og kærar þakkir fyrir árið sem var að líða. Þegar ég lít til baka yfir árið 2025 fyllist ég þakklæti – þakklæti fyrir samstöðuna og fyrir það kröftuga og ómetanlega starf sem svo mörg hafa lagt af mörkum í fjölbreyttum trúnaðarstörfum í þágu félagsfólks Kjalar.

Árið hefur verið viðburðaríkt, eins of oft áður. Við höfum áfram lagt mikla áherslu á fræðslu og eflingu trúnaðarmanna og stjórnarmanna. Eftirfylgni kjarasamninga, upplýsingagjöf og ráðgjöf til félagsfólks sem leitar eftir aðstoð - til dæmis vegna varðandi veikindarétt, orlof, launaútreikninga og túlkun launaseðla sem oft geta verið flóknir – er alltaf stór hluti af daglegu starfi félagsins.

Fræðsla trúnaðarmanna fór fram síðastliðið vor á Laugarbakka í Miðfirði og tókst afar vel. Þátttaka og áhugi þeirra sem tóku þátt, sýndi glögglega hversu mikilvægt samtalið og samveran er. Trúnaðarmenn eru grunnstoðin í félaginu okkar – stoð og stytta sem heldur þáttum starfsins saman og styrkir okkur í sameiginlegri baráttu.

Stjórn Kjalar sótti einnig ráðstefnu til Danmerkur í tengslum við norrænt samstarf BSRB-félaga og systurfélaga. Þar voru ræddar áskoranir framtíðarinnar, meðal annars áhrif gervigreindar, bakslag í jafnréttisbaráttu og leiðir til að styrkja félagsfólk í starfi með fræðslu. Við heimsóttum einnig HK kommunal í Kaupmannahöfn, stéttarfélag sem starfar þar í sjö deildum á landsvísu og hefur um 70.000 félagsfólk í kjölfar fjölmargra sameininga stéttarfélaga. Þótt stærðarmunurinn sé mikill eru viðfangsefnin í grunninn þau sömu, og er samstarf okkur afar dýrmætt – ekki síst í ljósi þess að félagið á yfir 100 ára sögu.

Kjölur hefur lagt ríka áherslu á að vera sýnileg og í nánu samtali við félagsfólk t.d. með heimsóknum á fjölda vinnustaða. Þar áttum við góð samtöl og fengum dýrmæta innsýn inn í þeirra dagleg störf ómissandi starfsfólks sem heldur samfélaginu gangandi dag hvern. Starfsfólk Kjalar í Stykkishólmi og á Ísafirði voru jafnframt með viðveru í einn dag í viku hverjum bæjarkjarna á Snæfellsnesi, Búðardal, Borgarnesi, Hólmavík og Vesturbyggð. Það er liður í því færa þjónustuna nær fólki og styrkja tengslin við félagsmenn um allt félagssvæðið.

Á Kvennaári 2025 lét Kjölur einnig til sín taka. Tókum þátt í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi, launamisrétti og misrétti í ólaunaðri vinnu. Yfir 60 félög og samtök stóðu að Kvennaári með fjölbreyttum viðburðum um allt land. Við tókum þátt í undirbúningi viðburða á okkar félagssvæði og hvöttum til þátttöku í Kvennaverkfallinu 24. október s.l. sem var gríðarlega góð – krafturinn í samstöðunni er afl sem ekkert fær staðist.

Þá tókum virkan þátt í umræðu og samstarfi innan hreyfingarinnar, bæði innan BSRB og á landsfundi bæjarstarfsmannafélaga, þar sem fjallað var um kjaramál, framtíðarsýn og stöðu opinberra starfsmanna. Þar kom skýrt fram styrkur okkar felst í því að standa þétt saman og tala einni skýrri röddu.

Kæru félagar,

Aðalfundur félagsins fer fram 26. mars nk. og fer þá fram kjör til formanns og stjórnar til næstu þriggja ára. Af því tilefni hef ég tilkynnt stjórn Kjalar að ég muni ekki gefa kost á mér til endurkjörs sem formaður félagsins. Það hefur verið mér mikill heiður að fá að starfa fyrir félagsfólk Kjalar og vinna með öflugu og metnaðarfullu fólki að sameiginlegum hagsmunum. Ég er afar þakklát fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt og fyrir þá ómetanlegu samstöðu sem hefur einkennt starf félagsins í gegnum tíðina.

Ég treysti því að Kjölur muni áfram vaxa og eflast með nýju fólki, nýjum hugmyndum og sterkri samstöðu. Ég óska ykkur öllum velfarnaðar og farsældar á komandi ári.