Starfsþróun hjá hinu opinbera í Danmörku

Málverkið Húsið í heiminum, heimurinn í húsinu eftir Anette H. Flensburg var gefið við opnum miðstöð…
Málverkið Húsið í heiminum, heimurinn í húsinu eftir Anette H. Flensburg var gefið við opnum miðstöðvar opinberrar stjórnunar sem rannsakar stjórnum hjá hinu opinbera á afmæli Friðriks krónprins. Málverkið er hugsað sem myndljósaskipti þar sem rýmin eru í stöðugri umbreytingu og í grundvallaratriðum takmarkalaus.

Árið 2021 voru 20 ár liðin frá stofnun Starfsmenntar en við stofnun fræðslusetursins fóru fulltrúar hagsmunaaðila/samningsaðila til Danmerkur og fengu kynningu á því hvernig unnið var að framþróun símenntunar opinberra starfsmanna þar í landi á þeim tíma. Sú ferð skilaði góðum hugmyndum og aðferðum inn í starf Starfsmenntar. Í tilefni af þessum tímamótum var ákveðið að heyra hverju frændur okkar Danir hafa breytt, hvað þeir hafa þróað og hvernig málin standa þar í landi, en Starfsmennt hafði fengið Erasmusplus styrk fyrir þessari fræðsluferð sem loksins náðist að fara í núna í maí.

 

Hvernig Danir leita leiða að nýta þekkingu
Markmið Starfsmenntar með þessari námsferð var að þátttakendur kynntust því hvernig Danir takast á við áskoranir í símenntun og starfsþróun opinberra starfsmanna og opna á tækifæri fyrir Starfsmennt til að bera saman þær aðferðir og starfshætti við okkar aðferðir hér heima. Einnig var lögð áhersla á að leita leiða að til að nýta nýjan lærdóm og þekkingu. Með það að leiðarljósi að efla enn frekar hæfniþróun opinberra starfsmanna á Íslandi, starfsmönnum, stofnunum, íbúum og samfélaginu öllu til heilla.

Ulla Moth-Lund Christensen, varaformaður HK, útskýrir undirstöðuþættina í hæfnihjóli sem HK hefur þróað.

Eftir þriggja daga fræðsluferð stendur meðal annars upp úr að Danir leggja mikla áhersla á að þjálfa og styðja við stjórnendur hjá hinu opinbera. Mikilvægt er að nálgast þjálfun og stuðning á forsendum þess að stjórnendur bera ábyrgð á að skila góðri, traustri og skilvirkri þjónustu þar sem virðið fyrir íbúana skipar stóran sess. Fróðlegt var að sjá hvernig þeir skipta stjórnendum upp í 3 hópa og sérsníða fræðslu og þjálfun út frá því en þetta eru forstjórar/æðstu stjórnendur, millistjórnendur og fagstjórnendur.

 

Áhersla lögð á samtalið
Einnig leggja Danir mikla áherslu á að greina hvað starfsfólk þarf að bæta við sig til að mæta áskorunum vinnumarkaðar framtíðarinnar. Þeir vinna mikið með „hæfnihjól“ sem hafa verið aðlöguð að mismunandi störfum og geta þannig unnið markvisst að því að bjóða upp á fræðslu sem hentar. Einnig vinna þeir með „hæfnihjólin“ fyrir starfsmannahópa, deildir og svið. Þannig geta þeir fundið út hvaða hæfni vantar inn á vinnustaði. Þá er áberandi áhersla þeirra á samtalið og undirbúning verkefna. Danir leggja mikið upp úr að þjálfun og nám beinist að tilteknum og skilgreindum markhópum í stað þess að bjóða upp á „almenna og staðlaða pakka“ sem starfsfólk getur almennt sótt.

Í Danmörku er gefinn góður tími í undirbúninginn og greiningu á markhópnum og þörfum hans áður en farið er af stað í framkvæmd á verkefnum. Í undirbúningnum eru kallaðir til fulltrúar allra sem verkefnið snertir og virkt samtal er viðhaft við hagsmunahópa.

 

Opinberir starfsmenn þurfa að búa yfir hæfni
Fram kom að Danmörk var í fyrsta sæti árið 2020 í könnun sem Sameinuðu þjóðirnar láta gera á því hvernig hið opinbera stendur sig í stafvæðingu á þjónustu, sjá hér. Grunnurinn að þessu var lagður árið 2017 þar sem var ákveðið að opinberir starfsmenn yrðu að búa yfir þeirri hæfni að gera sér grein fyrir tækifærum sem felast í stafrænni þróun og upplýsingatæknikerfum (en. it-systems). Módelið varð til eftir að þau skoðuðu 35 skýrslur, bæði danskar og alþjóðlegar, töluðu við 19 stofnanir og kölluðu svo inn 100 starfsmenn í vinnusmiðju. Byrjað var á því að greina hver væri eftirspurnin og hvað vantaði.

„Digitaliseringsstyrelsen (Digst)“ býr til hæfnikröfur og þróar námið, og skólar í einkageiranum bjóða í framkvæmdina. Markhópurinn eru stjórnendur og starfsfólk en bæði einstaklingar og teymi geta skráð sig á námskeiðin sem eru sérsniðin að þörfum hins opinbera. Flest námskeiðin er 1-3 dagar, eitt er 7 dagar. Nú er orðið meira um að teymi og starfshópar komi saman á námskeið. Mikil áhersla er á að stjórnendur hafi lágmarksþekkingu í hinum mismunandi tölvukerfum til að þeir geti hvatt og leitt starfsfólkið sitt í innleiðingu kerfanna.

Þá er verið að nýta stjórnendakannanir til að aðstoða stjórnendur til að vaxa og styrkjast. Þetta birtist vel í nafninu „Gróðurhús fyrir stjórnun“ (Væksthus for ledelse), sem var einn af stöðunum sem voru heimsóttir. Þar líktu þau vinnu sinni við vinnu býflugnanna, sem fara út um allt til að safna saman forða í sarpinn og kveikja þannig líf sem víðast. „Gróðurhús fyrir stjórnun“ safnar m.a. ýmsum reynslusögum og miðlar þeim áfram til að kveikja löngun sem flestra til að efla mannauðinn.

 

Þátttakendur í ferðinni voru Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis og formaður stjórnar Starfsmenntar, Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu og í stjórn Starfsmenntar, Aldís Magnúsdóttir og Halldóra Friðjónsdóttir, frá Kjara- og mannauðssýslu ríkisins og í stjórn Starfsmenntar, Guðfinna Harðardóttir, framkvæmdastjóri Starfsmenntar, Jóhanna Þórdórsdóttir, fræðslustjóri Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu og í stjórn Starfsmenntar, Berglind Eva Ólafsdóttir og Margrét Sigurðardóttir, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og Kristín Jónsdóttir Njarðvík og Laufey Elísabet Gissurardóttir, frá Starfsþróunarsetri háskólamanna.

 

Eftirfarandi staðir voru heimsóttir:

Kompetencesekretariatet
Hæfnisetur ríkisins sem nær bæði til BSRB hópsins og BHM hópsins og styður stofnanir við að setja saman fræðslupakka og sinna verkefnum tengdum mannauðseflingu. Hefur einnig umsýslu með fræðslustyrkjum. Hæfnisetrið er þannig nokkurs konar blanda af Starfsmennt, Starfsþróunarsetri háskólamanna og starfsmenntunarsjóðum.

 

Medarbejder- og Kompetencestyrelsen (Medst)
Heldur utan um stjórnun og vinnumarkað (Kontor for Ledelse og Arbejdsliv (LEA)) sem er deild innan Medst sem hefur það markmið að styrkja og þróa opinbera stjórnun. Þetta er nokkurs konar Kjara- og mannauðssýsla ríkisins hjá Dönum.

 

Digitaliseringsstyrelsen (Digst)
Sérstök eining sem sinnir stafrænni þróun hjá ríkinu.

 

Kommunernes Landsforening og Væksthus for ledelse
Samtök sveitarfélaga halda úti sérstökum vef sem á að nýtast stjórnendum og starfsfólki við að skapa góða vinnustaðamenningu. Efnið er mestmegnis fyrir stjórnendur og hvernig þeir geta unnið að góðri menningu á vinnustaðnum en margt af því getur einnig nýst starfsfólki til almennrar hæfnieflingar í mannlegum samskiptum, til undirbúnings starfsþróunarsamtals o.fl.

 

HK
Bandalag stéttarfélaga sem er fyrir ýmsar starfsstéttir bæði á almenna markaðinum og hjá hinu opinbera (ríki og sveitarfélögum). Á vef HK er að finna samning um hæfniþróun hjá ríkinu Kompetenceudvikling i staten - HK og lesa um hvernig maður kemst í hæfniform fyrir framtíðina - I form til fremtiden - HK.

 

Komponent - Kommunernes udviklingscenter
Hæfnisetur fyrir sveitarfélögin sem býður upp á námskeið í verkefnastjórnun, mannauðsfræðum o.fl. Komponent býður einnig upp á „Ráðgjafa að láni“ þ.e. greiningu á hæfnikröfum og uppsetningu fræðsluáætlunar. Hét áður COK - Center for Offentlig Kompetenceudvikling, sameinaðist KL´s Konsulentvirksomhed og KL Ledelsespolitik og úr varð Komponent.

 

Kronprins Frederiks Center for Offentlig Ledelse
Miðstöð sem var stofnuð í tilefni af 50 ára afmæli Friðriks krónprins árið 2018. Er við háskólann í Árósum, deild viðskipta- og félagsvísinda. Meginmarkmið er að tryggja að opinberi geirinn nái markmiðum sínum með því að rannsaka opinbera stjórnun og nýta niðurstöðurnar til að styðja stjórnendur og starfsfólk við að haga störfum sínum til almannaheilla. Niðurstöðurnar eru tengdar beint inn í meistaranám í opinberri stjórnun sem er í boði við háskólann í Árósum. Að auki nýta bæði Medst og Komponent niðurstöðurnar til að þróa fræðslu fyrir stjórnendur hjá ríki og sveitarfélögum.