BSRB 80 ára í dag

BSRB eru stærstu samtök opinberra starfsmanna á Íslandi. Bandalagið hét áður Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, en heitir nú einfaldlega BSRB eftir breytingu á lögum þess.

BSRB er samtök 19 stéttarfélaga  og innan þeirra eru um 23.000 félagsmenn sem sinna fjölbreyttum störfum í almannaþjónustu. Hlutverk BSRB er að fara með forystu í hagsmuna- og réttindabaráttu starfsmanna í almannaþjónustu hjá ríki, sveitarfélögum og á almennum vinnumarkaði gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum og stuðla að bættu velferðarsamfélagi.

Bandalagið fer einnig með samningsrétt í sameiginlegum málum félaganna og öðrum málum sem því er falið hverju sinni. Bandalagið styður aðildarfélögin við gerð kjarasamninga og í hagsmunagæslu félagsmanna. BSRB vinnur einnig að því að efla samstöðu aðildarfélaga og stuðla að jafnræði þeirra við veitingu þjónustu til félagsmanna. Þá vinnur bandalagið að fræðslu-, upplýsinga- og menningarstarfsemi ásamt jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði.

BSRB hefur í 80 ár verið samstarfsvettvangur opinberra starfsmanna og þeirra leið til að virkja samstöðuna til að berjast fyrir betri kjörum. Það eru fjölmargir ólíkir hópar sem eiga aðild að bandalaginu. Í okkar röðum er fólk sem starfar við umönnun, í grunnskólum, leikskólum, í löggæslu, við slökkvistörf og sjúkraflutninga, flugsamgöngur, heilbrigðisþjónustu, þjónustu við fatlað fólk, póstþjónustu, stjórnsýslu og ótal margt fleira.

„Við höfum þurft að berjast fyrir öllum þeim árangri sem hefur náðst í gegnum þessa 80 ára sögu BSRB og sú barátta hefur stundum verið harkaleg. En árangurinn er líka eftir því,“ skrifar forysta bandalagsins í bréfi til félagsmanna í tilefni af þessum tímamótum. Til stóð að fagna þessum tímamótum með félagsmönnum en sökum heimsfaraldursins verður það að bíða betri tíma.

„Nú styttist í að kjarasamningar verði lausir enn á ný og undirbúningurinn að hefjast hjá aðildarfélögunum. Við vitum ekki hverjar áherslurnar verða í kjaraviðræðunum. Það eru okkar frábæra félagsfólk sem varðar þá leið. En hverjar sem kröfurnar verða er ljóst að til þess að ná árangri verðum við að vera tilbúin í baráttuna saman. Það er gríðarlegur styrkur að vita til þess að rúmlega 23 þúsund félagar í aðildarfélögum BSRB standa saman og séu tilbúnir í baráttuna fyrir bættum kjörum og betri starfsaðstæðum,“ segir jafnframt í bréfi forystu BSRB til félagsmanna þar sem þeim er þakkað fyrir samvinnuna, stuðninginn og samstöðuna.

Það er ástæða til að fagna 80 ára afmælinu með því að horfa um öxl á það góða starf sem unnið hefur verið á vettvangi BSRB. Ekki síður er ástæða til að líta til þeirra fjölmörgu góðu verkefna sem framundan eru hjá þessu síunga bandalagi.

Lestu bréf forystu BSRB til félagsmanna aðildarfélaga bandalagsins hér.

Kjölur óskar BSRB til hamingju með afmælið.