Uppsagnarákvæði virkjast ekki í kjarasamningum Kjalar

Í kjarasamningum aðildarfélaga BSRB er ákvæði sem opnar á endurskoðun þeirra verði kjarasamningum á almennum vinnumarkaði sagt upp. Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hefur ákveðið að segja ekki upp kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Svo nú er ljóst að það ákvæði verður ekki virkt og samningar Kjalar standa óhaggaðir.

Eins og fram kom í gær telur ASÍ að ein af þremur forsendum sem lágu til grundvallar þegar sambandið gerði kjarasamning sé brostin. Þrátt fyrir það ákvað forysta ASÍ að segja ekki upp kjarasamningum á almennum vinnumarkaði áður en frestur til að gera það rann út í gær, 28. febrúar. Hefði ASÍ ákveðið að segja upp samningum á almennum vinnumarkaði hefði endurskoðunarákvæði í samningum allra aðildarfélaga BSRB virkjast.

Í kjölfarið hefði bandalagið fjallað um hvort rétt væri að segja þeim upp. Nú er ljóst að það ákvæði verður ekki virkjað í bili. Endurskoðun kjarasamninga á almenna markaðinum fer næst fram í byrjun næsta árs. Ákveðið verður fyrir lok febrúar 2018 hvort samningum verði sagt upp og í framhaldinu hvort samningar BSRB halda áfram.