Starfsmannafélag Fjarðabyggðar samþykkir sameiningu við Kjöl

Fráfarandi stjórn STAF, frá vinstri Björgúlfur, formaður, Þorgerður, Jóna Katrín, Þórdís, Sigurjón, …
Fráfarandi stjórn STAF, frá vinstri Björgúlfur, formaður, Þorgerður, Jóna Katrín, Þórdís, Sigurjón, Sigurborg og Jónína

Á aðalfundi Starfsmannafélags Fjarðabyggðar sem haldinn var fimmtudaginn 23. september síðastliðinn var borin upp tillaga um sameiningu félagsins við Kjöl stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu. Tillagan var samþykkt með 21 greiddu atkvæðum fimm voru á móti, einn auður og tekur sameiningin þegar gildi.

Kjölur stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu er eitt af stærstu aðildarfélögum BSRB. Félagið er deildaskipt og í kjölfar sameiningarinnar verður stofnuð STAF-deild innan Kjalar. Aðrar deildir félagsins eru á Dalvík, Siglufirði, Akureyri, í Skagafirði, Húnavatnssýslum og Borgarfirði. Við sameininguna þá tekur Björgúlfur Halldórsson, fráfarandi formaður STAF, sæti í stjórn Kjalar en STAF-deild er tryggt sæti á lista til stjórnar Kjalar stéttarfélags samkvæmt lögum félagsins.

Félagsaldur félagsmanna STAF flyst að fullu til sjóða Kjalar stéttarfélags, orlofssjóðs og starfsmenntasjóðs. Til áramóta nk. verður afgreiðsla styrkja starfsmenntasjóðs og afgreiðsla orlofshúsa STAF með óbreyttu sniði.

Með þessari ákvörðun er hafið sameiningarferli stéttarfélaga sem hefur verið í undirbúningi síðustu mánuði. Fyrir dyrum stendur á næstu vikum hliðstæð sameiningarkosning fjögurra annarra stéttarfélaga á landsbyggðinni við Kjöl stéttarfélag, þ.e. Starfsmannafélags Fjallabyggðar, Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsnessýslu, Félags opinberra starfsmanna á Vestfjörðum og Félags opinberra starfsmanna á Austurlandi.
Í lögum félagsins hefur frá upphafi verið gert ráð fyrir sameiningu við þessi félög. Að auki hafa aðalfundir félagsins ítrekað ályktað um frekari og víðtækari sameiningu við önnur stéttarfélög starfsmanna í almannaþjónustu á landsbyggðinni innan BSRB.

Kynningafundir meðal félagsmanna Kjalar verða 11. október nk. Skráning er nauðsynleg hér.

Myndin sýnir fundagesti í salum í Nesskóla en alls mættu 27 félagar.

 

 Fráfarandi stjórn og formaður starfsmenntasjóðs