Mikill seinagangur og vika í verkfall

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB

 

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segist upplifa mikinn seinagang í kjaraviðræðum. Verkfall fólks í fjölmörgum aðildarfélögum BSRB hefst á mánudag eftir viku takist samningar ekki á næstu dögum. Þúsundir leggja þá niður störf. Sonja var gestur á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. 

 

Verkföllin ná til starfsfólks hjá ríkinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg í heilbrigðisþjónustu, leik- og grunnskólum, á frístundaheimilum, í velferðarþjónustu og á heilbrigðisstofnunum svo fátt eitt sé nefnt. Lögreglumenn, tollverðir og fangaverðir hafa ekki verkfallsrétt en styðja aðgerðirnar. 

Verkfallsaðgerðum verður skipt í tennt. Tveggja daga skæruverkföll verða hjá öllum félögum. Smærri hópar hefja ótímabundið verkfall, meðal annars starfsmenn í grunnskólum og leiðbeinendur á frístundaheimilum. 

„Þetta eru tæplega 16 þúsund manns svo þetta mun hafa veruleg áhrif á alla þá starfsemi og þjónustu sem verið er að veita hjá hinu opinbera,“ segir Sonja.

Það gangi ekki upp að fók þurfi að bíða í næstum því ár eftir kjarasamningum. Hægt væri að ná samningum og komast hjá verkföllum - en tíminn sé illa nýttur.  

„Við höfum upplifað heilt yfir mjög mikinn seinagang í í viðræðunum og stundum eins og það sé ekki verið að greina hismið frá kjarnanum og verið að ýta undir það að fólk nái samningum og tali saman á þeim grundvelli. Við höfum líka verið mjög óþolinmóð því við teljum að þessi staða, að við höfum verið kjarasamningslaus í næstum því ellefu mánuði, sýni einfaldlega störfum okkar fólks vanvirðingu. “