Í upphafi árs - ávarp formanns Kjalar stéttarfélags

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar stéttarfélags
Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar stéttarfélags

Árið 2023 verður lengi í minnum haft fyrir að vera ár baráttu og samstöðu innan félagsins þegar u.þ.b. 500 bæjarstarfsmenn í félaginu lögðu niður störf. Samstaðan náði lengra því í heild voru um það bil 2500 félagar í BSRB í verkfalli á öllu landinu til þess að knýja fram réttlátar kjarabætur fyrir starfsfólk sveitarfélaga. Samstaðan var alger! Ástæða verkfallsins var mikil vonbrigði innan okkar raða. Það að sveitarfélögin væru ekki að tryggja jafnræði meðal síns fólks; tryggðu ekki sömu laun fyrir sömu störf eða jafn krefjandi störf, óháð kyni, vinnustað og/eða stéttarfélagi. Samstaðan og baráttuþrekið varð til þess að á endanum náðist samkomulag um 105.000 kr. sáttagreiðslu og voru frekari verkfallsaðgerðir þá blásnar af.

Áfram heldur ágreiningur við Samband íslenskra sveitarfélaga, nú síðast í lok síðasta árs vegna fimm ára endurskoðunar á starfsmati sem staðið hefur síðan árið 2021. Sambandið ákvað þá að sniðganga reglur kerfisins sem á að tryggja sömu laun fyrir sömu og sambærileg störf innan sveitarfélaga, með því að greiða launabreytingar frá 1. janúar 2024 án samþykkis okkar. Við gerum aftur á móti kröfu um að gildistíminn verði frá 1. september 2021.

Næstu kjarasamningar

Kjarasamningar okkar eru lausir frá 31. mars næstkomandi, fyrir utan Norðurorku og Orkubú Vestfjarða sem fylgja almenna markaðnum og eru því lausir í lok janúar nk. Tryggja þarf kaupmátt fólks og koma böndum á verðbólguna. Mikilvægt er að opinberir starfsmenn komi að borðinu ef tryggja á þjóðarsátt.

Við vinnum áfram með þau leiðarljós í vaktavinnu að öryggi starfsfólks og skjólstæðinga verði aukið, þannig að vaktavinna verði eftirsóknarverðari og að vinnutími og laun taki mið af vaktabyrði og verðmæti staðins tíma. Í skammtímasamningi náðist örlítil lagfæring á vaktahvatanum svo hann verður ekki svona kvikur. Það virðist hafa skilað einhverjum árangri því kvörtunum hefur fækkað um hann. Þá þarf að festa vinnutímastyttingu dagvinnufólks í 36 tíma á viku.

Á vettvangi BSRB verður áfram unnið að því að endurmeta virði kvennastarfa og auka jafnrétti í íslensku samfélagi en Kvennaverkfallið 24. október var hápunktur ársins og samstaðan og þátttakan mögnuð um allt land. Fokk feðraveldið! En helsti þröskuldur í samfélagsgerð okkar hvað jafnréttisbaráttu varðar er kynjamisrétti og rótgrónar hugmyndir um karlmennsku og kvenleika. Íslenskur vinnumarkaður er afar kynjaskiptur sem best sést á því að konur eru meirihluti starfsmanna í umönnun en mikill meirihluti karla starfar við mannvirkjagerð. Þá hefur kynjaskiptur vinnumarkaður áhrif á sjálfsmynd ungs fólks á þann hátt að takmarka möguleika þess á að velja sér starfsvettvang.

Stríðin, flóttafólk og innflytjendur

Áfram halda stríðsátök í Úkraínu og okkur þykir nóg um það sem lagt er á almenna borgara, konur og börn. Bæst hefur við stríð sem geisar á Gasa sem er öllu óhugnanlegra en stríðið í Úkraínu, allir eru skotmark, konur, börn og sjúkir á sjúkrahúsum. Það virðist eiga að eyða samfélaginu öllu á Gasa. Aftur minna stríðsátök okkur á völd manna sem láta loka fyrir rafmagn og vatn til borgara og gera þau síðan að skotmarki. Við hér á Íslandi getum ekki gert okkur í hugarlund hvað þessi neyð er mikil. Getum við ekki gert betur til að hjálpa fólki á flótta? Íslensk stjórnvöld benda á að hér á landi skorti innviði til að taka á móti flóttafólki og hefur ungum barnafjölskyldum verið vísað ítrekað úr landi beint á götuna í Grikklandi. Samkvæmt skýrslu kjaratölfræðinefndar hefur fjölgun á starfandi innflytjendum aukist um 60% frá árinu 2019 og eykst enn. Ferðaþjónustuaðilar virðast fá að flytja inn ótakmarkað vinnuafl til að þjónusta þá þúsundir ferðamanna sem enginn má missa af. Þá er ekki rætt hvort innviðir landsins geti tekið á móti þessu starfsfólki eða ferðamönnum. Heilsugæsla og sjúkrahús yfirfyllast, ekki er til húsnæði og aðbúnaður fyrir þessa starfsmenn og við horfum á að þeir búa í ósamþykktu húsnæði eða fjöldi deilir einu og sama herberginu. Hvíldartímaákvæði kjarasamninga eru brotin og greiðsla fyrir vinnumagn er ekki alltaf í samræmi við vinnuframlagið. Hvað segja stjórnvöld við þessu? Hverjir stjórna því hver fær að vera og hver fær ekki að vera? Hver leggur mat á innviði landsins?

Ágætu félagar!

Félagsmönnum, fjölskyldum þeirra og starfsmönnum Kjalar stéttarfélags óska ég gleðilegs nýs árs með kærum þökkum fyrir samskiptin á árinu sem er að líða. Ég er þakklát fyrir samstöðuna og baráttuandann sem einkenndi liðið ár og fer full bjartsýni inn í nýtt ár samstöðu, bjartsýni og vonar um frið fyrir heimsbyggðina alla. Saman eru okkur allir vegir færir! Sérstakar þakkir fær Helga Hafsteinsdóttir fv. formaður Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsnessýslu og starfsmaður í SDS svæðisdeild félagsins en starfslok hennar á skrifstofu Kjalar í Grundarfirði voru nú í lok árs og eru henni færðar þakkir fyrir starf sitt í þágu stéttarfélagsmála til fjölda ára og óska ég henni velfarnaðar í framtíðinni.

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður