Umsóknarfrestur um orlofshús til 28. mars nk.

Forsíða orlofsblaðsins
Forsíða orlofsblaðsins

Fréttablað orlofssjóðs er á leið í póst en kemur hér inn og um leið er hægt að setja inn umsóknir um dvöl í sumarhúsi félagsins. 
Í þessari útgáfu Kjölfestu eru samkvæmt venju kynntir þeir sumarleyfisvalkostir sem félagið hefur að bjóða sínum félagsmönnum. Í fyrra bættist við hús á Illugastöðum í Fnjóskadal en félagið hafði leiguskipti við stéttarfélagið Einingu-Iðju og eftirlét í staðinn hús nr. 36 í Munaðarnesi. Þetta fyrirkomulag mæltist vel fyrir hjá báðum félögunum og geta Kjalarfélagar því aftur sótt um hús á Illugastöðum þar sem er skemmtileg sumarhúsabyggð. Heitt vatn er á Illugastöðum og heitur pottur við húsið, sundlaug á svæðinu, leiksvæði, gott netsamband og fjölbreyttir kostir í stuttum ferðum um nágrennið, hvort heldur á bíl eða fótgangandi.

Eina breytingin frá síðasta sumri hvað orlofshúsin varðar er sú að flaggskip okkar í Munaðarnesi, Reynihlíð, verður ekki til úthlutunar fyrst um sinn. Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir í húsinu í vetur og munu standa að minnsta kosti fram á sumar. Segja má að húsið verði nánast endurbyggt og verður það að sjálfsögðu stórglæsilegt að framkvæmdum loknum. 

Breytingum á leiguverði milli ára er mjög stillt í hóf. Sama er að segja um verð á útilegu-, veiði- og frístundakortum. Líkt og í fyrra verða 100 „Orlofi að eigin vali“ í boði í ár. Einnig er vert að minna félagsmenn á hagstæð kjör á hótelgistingum sem félagsmenn geta nýtt sér með kaupum á gistimiðum. Með þessu móti geta þeir keypt gistingu á nokkrum af bestu hótelum landsins á afar hagstæðu verði.