NTR Ráðstefnan yfirstaðin

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar.
Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar.

NTR Ráðstefnan, Nordisk Tjänstemannsråd, fór fram í Reykjavík dagana 25. til 27. júní á Hilton Reykjavík Nordica. NTR eru samtök bæjarstarfsmanna á Norðurlöndum og rúmlega 100 fulltrúar frá Íslandi, Færeyjum Noregi, Svíþjóð og Danmörku tóku þátt.

Arna Jakobína Björnsdóttir formaður NTR og Kjalar setti ráðstefnuna á Hilton þann 26. júní og fjallaði í ræðu sinni um jafnrétti, stöðu verkalýðshreyfingarinnar, mat á virði kvennastarfa og stefnu stjórnvalda og sveitarfélaga að einkavæða grunnþjónustuna. „Við viljum ekki samfélag sérhyggju, þar sem hver og einn hugsar aðeins um sjálfan sig og þar sem almennt siðgæði og samfélagsleg ábyrgð er litin hornauga. Á öllum norðurlöndunum er ásókn í samtryggingkerfi okkar þá sér í lagi frá einkaaðilum sem vilja taka yfir reksturinn. Telja stjórnmálamönnum trú að þeir geri betur en það er ekki reyndin. Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu grefur undan félagslegum grunni kerfisins og hefur í för með sér dýrari þjónustu fyrir einstaklinga og samfélagið. Við verðum að hlúa að samtryggingarkerfinu, standa um það vörð og skulum aldrei láta það gerast að það verði rifið niður! Þetta er öryggiskerfi sem verkalýðshreyfingin hefur búið til og þarf stöðugt að verja og vernda,“ sagði Arna Jakobína.

„Íslenskar og norrænar rannsóknir sýna að kynjaskiptur vinnumarkaður er ein helsta skýring kynbundins launamunar en til að draga úr kynjaskiptingu vinnumarkaðarins og jafna laun milli atvinnugreina þarf meðal annars að kortleggja stöðuna þegar kemur að kynbundnu náms- og starfsvali, starfsþróunarmöguleikum og tækifærum til að sækja aukna þekkingu í starfi. Þrátt fyrir að Ísland standi öðrum löndum framar þegar kemur að jafnri stöðu kynjanna er enn nokkuð langt í að jafnrétti verði náð á íslenskum vinnumarkaði. Það þarf að gefa í og eru aðgerðir gegn kynbundnum launamun og að bæta réttindi kvenna og minnihlutahópa á vinnumarkaði. Það er norðurlöndunum til skammar að hafa ekki náð lengra í þessum málum en raun ber vitni.“

Þá sagði hún að róttækari aðgerðir þurfi til að breyta þessu. Og til þess þurfi verkalýðshreyfingin á norðurlöndunum að snúa saman bökum og gera þá skýlausu kröfu að borga kvennastéttum hærri laun. „Við þurfum að leiðrétta virðismat kvennastarfa,“ sagði formaður Kjalar.

Guðni T.h. Jóhannesson forseti ávarpaði ráðstefnugesti og í ræðu sinni fjallaði hann um frasann eða hugtakið sem Íslendingar eru gjarnar þekktir fyrir að grípa til þegar svo virðist sem allt sé að lenda í skrúfunni – „þetta reddast“. Forsetinn vitnaði í bók danska rithöfundarins og fjölmiðlakonunnar Signe Amtoft sem ber heitið Det ordner sig. Í henni segir hún frá ferð sinni um landið og rannsókn hennar á meintum þjóðareinkennum Íslendinga sem megi draga saman í máltakinu „þetta reddast“. Forsetinn er meðal viðmælanda í bókinni og á fundi hans og Amtoft ræddu þau um þjóðareðli Íslendinga og klisjur og sannindi sem tengjast umræðum á þeim vettvangi. Forsetinn sagði bókina afbragðsgóða um hugtakið „þetta reddast“. Knut Roger, framkvæmdastjóri NTR, óskaði forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar til hamingju með afmælisdaginn, færði honum blómvönd og þakkaði honum komuna á ráðstefnuna sem er í fyrsta sinn í sögu NTR að þjóðhöfðingi flytur ávarp á ráðstefnu þess.

Lisa Gastaldi, gagnafræðingur við stjórnmálafræðideild Gautaborgarháskóla, flutti fyrirlestur um lýðræði og birti gögn úr mælingum á lýðræði í löndum heimsins.

Laust Høgedahl, vinnumarkaðsfræðingur við Álaborgarháskóla, flutti fyrirlestur um Norræna vinnumarkaðsmódelið og bar saman hvernig vinnumarkaðurinn virkar í Norrænu löndunum. Hann sagði þjóðirnar eiga mikla möguleika á að læra hvort af öðru hvernig vinnumarkaðurinn gæti þróast áfram.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, hélt fyrirlestur á ráðstefnunni sem bar yfirskriftina Saman vinnum við stóru sigrana. Hún fjallaði þar meðal annars um Norræna velferðarkerfið og benti á þá staðreynd að á Norðurlöndunum er víða ójöfnuður og ójafnrétti, í löndum sem stundum eru nefnd jafnréttisparadís.

Að lokum sagði Sonja Ýr að verkalýðshreyfingin sé stærsta friðarhreyfing í heimi. Það er afl sem getur breytt heiminum og skapað nýja framtíð fyrir afkomendurna.

„Við þurfum félagslegar áherslur til að tryggja félagslegt réttlæti. Á Íslandi er sá stjórnmálaflokkur sem nú stígur hátt í skoðanakönnunum, og það er flokkur sem er að fara aftur í grunninn. Fólk sem býr hér á Íslandi vill jöfnuð, það vill sterkt samfélag. Hérna er orðið rof á milli fólksins og stjórnmálamanna. Við í verkalýðshreyfingunni erum fulltrúar vinnandi fólks og við getum saman stuðlað að samfélagi jöfnuðar sem fólk langar til að búa í. Saman erum við sterk og saman getum við breytt heiminum, og þess vegna vil ég vitna í orð Nelson Mandela sem sagði: „It always seems impossible until it‘s done“.

 

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar og Lene Roed, formaður HK Municipal

Lene Roed, formaður HK Municipal tók við formennsku NTR næstu tvö árin af Örnu Jakobínu Björnsdóttur, formanni Kjalar.

Næsta NTR ráðstefnan verður haldin í Kaupmannahöfn, Danmörku árið 2025.