Andlát: Magnús Jóhannesson trúnaðarmaður

Í sorginni ómar eitt sumarhlýtt lag,
þó er sólsetur, lífsdags þíns kveld.
Því er kveðjunnar stund, og við krjúpum í dag
í klökkva við minningareld.

Orð eru fátæk en innar þeim skín
það allt sem við fáum ei gleymt.
Allt sem við þáðum, öll samfylgd þín
á sér líf, er í hug okkar geymt.

Í góðvinahóp, þitt var gleðinnar mál
eins þó gustaði um hjarta þitt kalt.
Því hljómar nú voldugt og sorgblítt í sál
eitt sólskinsljóð, - þökk fyrir allt.
(B.B.)

Fallinn er félagi Magnús Jóhannesson sem hefur verið trúnaðarmaður félagsins, fyrir starfsmenn íþróttamannvirkja, til fjölda ára hann bar hag og réttlæti félagsmanna ætíð fyrir brjósti. Magnús var liðsmaður sem vildi öllum vel og alltaf reiðubúinn til vinnu fyrir félagið ef hann gat „orðið að liði“ eins og hann orðaði það.

Fyrir hönd Kjalar stéttarfélags eru Magnúsi færðar miklar þakkir fyrir hans góðu störf í þágu félagsins og mun minningin um hann lifa. Mikill er missir fyrir konu hans, Jenný, börn þeirra, tengdabörn og barnabörn og sendi ég þeim innilegar samúðarkveðjur.

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður