„Allir þurfa opinbera þjónustu, einnig þeir sem eru á móti henni“

Sonja ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Ljósmynd/Árni Sæberg
Sonja ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Ljósmynd/Árni Sæberg

Sameyki stéttarfélag birti mjög gott viðtal við formann BSRB, Sonju Ýr Þorbergsdóttur. Kjölur fékk góðfúslega veitt leyfi hjá Axeli Jóni Ellenarsyni samskiptastjóra Sameykis að birta það viðtal hér á síðu Kjalar.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir hefur verið formaður BSRB frá haustinu 2018 en hún hefur unnið fyrir félagsfólk aðildarfélaga BSRB mun lengur, enda starfaði hún sem lögfræðingur bandalagsins frá árinu 2008. Sonja er með B.Sc.-gráðu í viðskiptalögfræði og ML-gráðu í lögfræði frá Háskólanum á Bifröst. Hún kenndi vinnurétt sem stundakennari við laga- og viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og var auk þess aðjúnkt við Háskólann á Bifröst.

BSRB var stofnað árið 1942, m.a. af SFR og öðrum stéttarfélögum á opinberum vinnumarkaði sem voru sammála um mikilvægi þess að taka höndum saman í hagsmunabaráttu launafólks. Sonja Ýr segir að hún sé þakklát fyrir að starfa fyrir bandalagið og tilgangur þess sé fyrst og fremst jafnréttisbarátta. Þá segir hún að hlutverk BSRB sé m.a. að berjast fyrir því að tryggja að launafólk fái sinn réttmæta skerf af verðmætasköpun samfélagsins.

Hagsmunabaráttan er verkalýðspólitík

Við hefjum viðtalið við Sonju Ýri á að spyrja hana um hver grunngildi og tilgangur bandalagsins eru.

„BSRB var stofnað árið 1942, m.a. af SFR og öðrum stéttarfélögum á opinberum vinnumarkaði sem voru sammála um mikilvægi þess að taka höndum saman í hagsmunabaráttu launafólks. Á þeim tíma þegar BSRB var stofnað var ríkjandi dýrtíð. Verðbólga, háir vextir og slæm afkoma heimilanna og markmiðið var að standa vörð um heimilin í landinu, um kaup og kjör og ekki síst þjónustu hins opinbera. Hugsjónin þá sem nú er að vera samfélagsafl sem stuðlar að auknum lífsgæðum. Stefna BSRB endurspeglar að þetta er hagsmunabarátta í víðum skilningi og einkum gagnvart stjórnvöldum, með megináherslu á almannaþjónustu, fjárhagslegu stuðningskerfin, húsnæðismál og fleira.

Styrkur okkar hefur í áranna rás verið sá að við sameinumst um grunngildi um velferð, jöfnuð og jafnrétti fyrir öll en ekki bara sum. Þetta eru gildi sem við sameinumst um þvert á stjórnmálaskoðanir eða ólíka samfélagslega stöðu okkar að öðru leyti. Sérstaklega hefur BSRB lagt áherslu á fjölskylduna. Þetta hefur alltaf verið bandalaginu hjartans mál – að horfa til stuðningskerfa fyrir fjölskyldur. Rúmlega 80 ára saga BSRB er samofin samfélagsþróuninni og við höfum því reynslu af að starfa náið með ríkisstjórnum að heildarhagsmununum en líka af að vera í þeirri stöðu að þurfa að veita stjórnvöldum ríkulegt aðhald ef við teljum að þau séu að gæta sérhagsmuna á kostnað sameiginlegra hagsmuna. Við höfum náð fram mikilvægum kjara- og samfélagsumbótum en stundum þurfum við að há varnarbaráttu,“ segir Sonja Ýr.

 

Öflug opinber þjónusta forsenda jöfnuðar
Telurðu að ríkisstjórnin styðji stefnu verkalýðshreyfingarinnar um aukinn jöfnuð og réttindi borgaranna?

„Já, ég myndi segja að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sé að finna mörg atriði sem ríma við stefnu BSRB. Við vorum þó ekki sérlega hrifin af því að fyrsta verk ríkisstjórnarinnar skyldi vera að óska eftir hagræðingartillögum. Við bentum á að ríkissjóður hefur verið rekinn með halla til margra ára vegna ófjármagnaðra skattalækkana, t.d. lækkunar á tryggingargjaldi, fjármagnstekjuskatti, erfðaskatti og bankaskatti. Hagræðingaraðgerðir munu því ekki stoppa í gatið en geta dregið enn frekar úr einkennum okkar sem norræns velferðarsamfélags.


„Langflestar reglur sem gilda hér á landi um vinnumarkaðinn koma frá ESB. Alþjóðasamstarfið er því mjög mikilvægt, því annars værum við of smá ein og sér til að hafa áhrif.“

Þegar hagræðingartillögurnar litu svo dagsins ljós töldum við margar þeirra draga taum Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs. Þar er til dæmis lagt til að starfsmannalög verði löguð að almennum markaði sem myndi fela í sér skerðingu réttinda hjá opinberu starfsfólki. Það jafngildir stríðsyfirlýsingu við verkalýðshreyfinguna. Að sjálfsögðu viljum við jafna kjörin milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins en það verður að jafna upp á við.

Stjórnvöld verða að horfast í augu við að hinn raunverulegi vandi í starfsmannamálum er starfsmannavelta, mönnunarskortur og mikil veikindafjarvera sem er jafnan rakin til mikils álags í störfum. Mesti sparnaðurinn fengist með því að grípa til aðgerða til að stemma stigu við þeim vanda – og það væri líka manneskjulegasta leiðin. Einn stærsti hópurinn sem missir starfsgetu og er á örorku er fyrrum starfsfólk heilbrigðis- og félagsþjónustu. Þetta eru konur 50 ára og eldri. Önnur tillaga hagræðingarhópsins snýr að því að spara megi með því að auka valdheimildir ríkissáttasemjara, meðal annars til að grípa inn í vinnudeilur. Við höfum ítrekað sagt að það komi ekki til greina enda myndi það veikja verkfallsréttinn verulega og þar með samningsstöðu launafólks.

Er hætta á að verkfallsrétturinn verði skertur eða tekinn af launafólki?

„Þegar verkföll eru boðuð er það vegna þess að það er fullreynt að ná saman. Við höfum alltaf fengið gríðarlega afgerandi niðurstöðu í atkvæðagreiðslum um verkföll og góða þátttöku. Svo rík samstaða er sterkasta vopnið og það er yfirleitt það eina sem kemur kjarasamningsviðræðum í gang fyrir alvöru ef langt er á milli aðila. Verkfallsrétturinn er þannig eina örugga vopnið sem við höfum til að knýja fram breytingar. Sagan sýnir að stærstu sigrarnir okkar – stytting vinnuvikunnar svo nýlegt dæmi sé tekið eða leiðrétting á misrétti í launum sem félagsfólk okkar sem starfar hjá sveitarfélögunum bjó við árið 2023 – hefðu aldrei orðið nema vegna þess að við höfðum boðað verkfall. Það er ekki lýðræðislegt að gefa einni manneskju það vald að grípa inn í boðaðar aðgerðir launafólks, og ég neita að trúa að stjórnvöld ætli að ganga erinda atvinnurekenda í þessu grundvallarréttindamáli launafólks,“ segir formaður BSRB.


„BSRB hefur allt frá stofnun náð ýmsum mikilvægum áföngum í tengslum við jafnréttisbaráttuna. Fyrsta jafnlaunákvæðið sem sett var í lög árið 1954 og gilti um starfsfólk ríkisins var til dæmis afrakstur baráttu bandalagsins. BSRB stytti vinnuvikuna í kjarasamningum tveimur árum áður en það var lögfest 40 stunda vinnuvika fyrir allan vinnumarkaðinn.“ Ljósmynd/Hari

 

Styrkurinn felst í að tala einni skýrri röddu
Hvað með hlutverkaskipan stéttarfélaganna innan BSRB, hvernig er verkaskiptingunni háttað?

„Við byggjum á norrænni fyrirmynd og skipulag stéttarfélaga og heildarsamtaka launafólks er svipað hjá okkur og ASÍ, sem eru stærstu heildarsamtök launafólks á Íslandi. Stéttarfélögin semja um kaup og kjör – og svo getum við tekið okkur saman á vettvangi BSRB ef vilji er fyrir hendi í málum sem varða sameiginlega hagsmuni við kjarasamningsborðið. Þeir eru yfirleitt fleiri en færri. Þess vegna höfum við undanfarin ár lagt gríðarlega áherslu á að við sameinumst ekki einungis um mikilvægar breytingar innan raða BSRB heldur að við vinnum að því að ná samstöðu og samvinnu við önnur heildarsamtök launafólks. Eitt dæmi þess er að samhliða gerð kjarasamninga á síðasta ári lögðu stjórnvöld fram aðgerðapakka til að styðja við kjarasamninga. Það var afrakstur mikillar vinnu þar sem við stóðum þétt saman með hinum heildarsamtökum launafólks og samræmdum kröfur okkar. Niðurstaðan var yfirlýsing um aukið framboð íbúðarhúsnæðis og hagkvæmra íbúða í almenna íbúðakerfinu, endurmat á virði kvennastarfa með gerð virðismatskerfis, brúun bilsins milli fæðingarorlofs og leikskóla, hækkun hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, hækkun barnabóta og aðhald á hækkunum á opinberum gjaldskrám.

 

Jafnrétti forgangsmál BSRB
Jafnréttismálin hafa verið fyrirferðamikil hjá bandalaginu undanfarin ár. Hver er árangurinn af því öfluga starfi?

„BSRB hefur allt frá stofnun náð ýmsum mikilvægum áföngum í tengslum við jafnréttisbaráttuna. Fyrsta jafnlaunákvæðið sem sett var í lög árið 1954 og gilti um starfsfólk ríkisins var til dæmis afrakstur baráttu bandalagsins. BSRB stytti vinnuvikuna í kjarasamningum tveimur árum áður en lögfest var 40 stunda vinnuvika fyrir allan vinnumarkaðinn. Sömuleiðis náðist réttur til launa í fæðingarorlofi fyrir konur á opinberum markaði áður en það varð almennur réttur. Það er mikilvægt að hafa í huga að tveir þriðju félagsmanna innan BSRB eru konur. Okkar fólk vinnur á stærstu kvennavinnustöðum landsins.

Frá því ég hóf störf hjá BSRB 2008 hefur alltaf eitthvað jafnréttistengt málefni verið eitt af forgangsmálunum. Við vörðum miklum tíma í að leggja okkar af mörkum við gerð jafnlaunastaðalsins sem var sannarlega framfaraskref á sínum tíma, og verður nú að endurskoða svo hann endurspegli bestu stöðu þekkingar. Fljótlega eftir að hann var tilbúinn árið 2012 varð okkur ljóst að meginástæða launamunar kynjanna er vegna þess hve kynskiptur vinnumarkaðurinn er, þ.e. að kvennastéttir hafa verið á lægri launum en sambærilegar stéttir allt frá upphafi. Konur hafa haldið samfélaginu uppi á afsláttarkjörum. Það hefur því verið forgangsverkefni undanfarin ár og í síðustu kjarasamningum fengum við í gegn að búið verði til heildstætt virðismatskerfi fyrir öll störf hjá ríkinu þannig að það verði hægt að bera saman störf þvert á stofnanir ríkisins. Þá er unnið að endurskoðun á starfsmati sveitarfélaga. Á árunum rétt fyrir og eftir #metoo-byltinguna sem hófst 2017 unnum við ötullega að vitundarvakningu um kynbundna og kynferðislega áreitni og annað ofbeldi á vinnumarkaði.

 

Stytting vinnuvikunnar risastórt jafnréttismál
Við settum styttingu vinnuvikunnar á dagskrá, undirbyggðum umræðuna með mikilli rannsóknarvinnu, sömdum í kjarasamningum um tilraunaverkefni hjá ríkinu, fengum að vera með í slíku verkefni hjá Reykjavíkurborg og sömdum loks um það í kjarasamningum árið 2020. Það er risastórt jafnréttismál. Ólaunuð störf við umönnun barna og rekstur heimilis hvíla enn þá mun frekar á herðum kvenna en karla. Til að breyta menningunni heima fyrir þurfa karlmenn líka meiri frítíma til að geta tekið aukinn þátt. Rannsóknir okkar sýna að þegar vinnuvikan styttist, þá verja feður meiri tíma með börnunum sínum. Það er því tvíhliða ávinningur – bæði jafnrétti og aukin velferð fjölskyldunnar. Í kjarasamningunum 2020 náðum við líka í gegn að orlof yrði 30 dagar fyrir öll og yrði þannig ekki lengur tengt við lífaldur. Fæðingarorlof var líka lengt í 12 mánuði í tengslum við gerð kjarasamninga sem hafði verið áralangt baráttumál okkar. Næst verður að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.

Kveikjan að Kvennaverkfallinu 2023 kemur frá okkur og við áttum í frábæru samstarfi við fjölda samtaka kvenna, launafólks, hinsegin fólks og fatlaðs fólks. Þar sáum við skýrt hverju samtakamátturinn getur skilað – stærsta útifundi sem haldinn hefur verið á Íslandi og skýru ákalli um breytingar. Þó að hér á landi hafi náðst mikill árangur í jafnréttismálum búa konur á Íslandi enn við kynbundinn launamun og faraldur kynbundins ofbeldis. Núna höfum við tekið höndum saman með á sjötta tug annarra samtaka og boðað heilt Kvennaár 2025 til að halda vitundarvakningunni og baráttunni áfram.

 

Sveitarfélögin sjálf voru mótfallin styttingu vinnuvikunnar
Þú nefnir styttingu vinnuvikunnar. Þar var loforð gefið um að fjármagn skyldi fylgja til að mæta mönnunarvandanum vegna þessarar breytingar á vinnumarkaðnum. Við heyrum af óánægðum stéttum eins og starfsfólki leikskóla – þar er mikið álag og mikill mönnunarvandi. Hefur nægilegt fjármagn ekki fylgt styttingu vinnuvikunnar?

„Stytting vinnuvikunnar sem við sömdum um er þannig að þegar um dagvinnu er að ræða fylgdi ekki sjálfkrafa aukið fjármagn. Hver vinnustaður átti að endurskipuleggja vinnudaginn og finna leiðir til að mæta breytingunni. Kjarasamningurinn var skýr um að það ætti að vera samstarfsverkefni starfsfólks og stjórnenda innan hvers vinnustaðar fyrir sig. Við höfðum prófað það í tilrauna-verkefnunum hjá ríki og Reykjavíkurborg og vissum að þessi leið væri fær. Þetta var vissulega áskorun á vinnustöðum eins og leikskólum en í raun frekar einfalt á vinnustöðum eins og skrifstofum þar sem fólk nýtur sveigjanleika. Við vissum þó að a.m.k. 40% af fólki á vinnumarkaði er í þannig störfum að það verður að vera á vinnustaðnum á tilteknum tíma – getur ekki unnið í fjarvinnu eða notið sveigjanleika í hvenær er unnið. Það var því einn stærsti drifkrafturinn í baráttunni – hvernig ætti að tryggja jafnrétti milli þessara tveggja hópa. Leikskólinn var einmitt sá dagvinnustaður sem við ræddum hvað mest um við kjarasamningsboðið. Við bentum á að um áraraðir hefði viðhorfið til kvennastétta verið að þær gætu sífellt hlaupið hraðar og stytting vinnuvikunnar myndi draga fram hversu ólíkt álagið væri á milli vinnustaðanna og hversu auðvelt í raun er að stytta vinnuvikuna hjá hefðbundnu skrifstofufólki en mun flóknara verkefni í leikskólum. Það væri á ábyrgð stjórnenda sveitarfélaga að jafna leikinn.

Við reyndum að semja sérstaklega um hvernig ætti að standa að innleiðingu styttingarinnar hjá leikskólum þannig að það væri nær módelinu eins og á vaktavinnustöðum en tókst ekki – sem var í raun vegna þess að ónefndu stéttarfélagi lá svo á að semja áður en við náðum að útkljá nokkur útistandandi atriði og þannig lokuðust öll sund fyrir þann möguleika, en það er önnur saga.

 

Staðan í leikskólum er of víða algjörlega óásættanleg
Það er hins vegar annað mál með vaktavinnu. Þar fylgdi fjármagn, einfaldlega vegna þess að ekki er hægt að reka sólarhringsþjónustu án þess að fjölga fólki þegar vinnuvikan styttist. Þeirra verkefni var samt það sama eins og á dagvinnustöðum – að skoða hvernig mætti breyta fyrirkomulagi vinnudagsins og svo fékkst fjármagn fyrir það sem upp á vantaði. Þannig að það var misjafnt á milli vinnustaða.


Sonja Ýr ásamt forystufólki verkalýðshreyfingarinnar með líkneski af Venus á herðum sér sem Messíana Tómasdóttir, listakona, teiknaði upprunalega fyrir kröfugönguna árið 1970. Mynd/Kvennaár 2025

Eftir að kjarasamningarnir höfðu verið undirritaðir fundum við mjög sterkt fyrir tregðu hjá mörgum sveitarfélögum gegn þessum breytingum. Það var þónokkuð um að hver benti á annan um ábyrgðina og fjölmörg þeirra reyndu að skikka sitt starfsfólk í lágmarksstyttingu – sem var brot á kjarasamningi. Ríki og Reykjavíkurborg höfðu meiri reynslu og þekkingu í gegnum tilraunaverkefnin, þar var almennt meiri stuðningur við stjórnendur og heilt á litið gekk mun betur að innleiða styttinguna þar en hjá öðrum sveitarfélögum. Svo var augljóslega pólitísk andstaða hjá sveitarfélögunum og reynt að vinna gegn því sem samið hafði verið um. Það dró líka fram mjög úrelt viðhorf til starfsfólks og starfanna og skort á faglegum vinnubrögðum um stjórnun mannauðs.

Staðan í leikskólum er of víða algjörlega óásættanleg og það er ekki vegna styttingar vinnuvikunnar. Þegar uppbygging leikskóla hófst voru þetta stofnanir sem við vorum stolt af og kjölfestan í farsælu fjölskyldusamfélagi. Það er pólitísk ákvörðun að vanfjármagna mikilvægustu kerfin okkar og innviði, draga hægt og rólega úr þjónustu og treysta á fórnfýsi kvenna sem hafa í raun bjargað leikskólakerfinu með því að hlaupa hraðar á lágum launum. Það þarf breytingar í pólitíkinni til að litið verði aftur á leikskóla sem fjöregg sem verður að styðja – ef ekki endurreisa – bæði með fjármagni og mönnun. Annars mun eitthvað undan láta og yfirleitt er það heilsa þeirra sem þar starfa sem er fyrst til að fara. Stjórnendur sveitarfélaganna hafa ekki viljað horfast í augu við ábyrgð sína á því,“ segir hún.

 

Erlent samstarf mikilvægt
Aðeins að erlendu samstarfi. BSRB er aðili að alþjóðlegum samtökum eins og PSI. Er þetta mikilvægt samstarf? Hvaða hlutverki gegnir bandalagið þar?

„Við eigum aðild að norrænum, evrópskum og alþjóðlegum samtökum launafólks, annars vegar fyrir launafólk á opinberum vinnumarkaði og hins vegar á öllum vinnumarkaðnum. Á Norðurlöndunum er það NFS (Norræna verkalýðssambandið) sem við tökum mestan þátt í, þar koma saman öll samtök launafólks sem starfa bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði. ASÍ og BHM eiga einnig aðild að þeim. Þessi norræni vettvangur er ekki aðeins samstarfsvettvangur um norræna samvinnu heldur einnig á evrópska og alþjóðlega vísu.

Við fáum mikla þekkingu og styrk í okkar baráttu í gegnum þetta samstarf, enda eru hagsmunamálin þau sömu þó að forgangsröðunin kunni að vera ólík. Á þessum vettvangi fáum við líka tækifæri til að hafa áhrif á sameiginlegar áherslur og baráttu fyrir að þær skili sér í stefnumörkun og mótun löggjafar sem varðar vinnumarkaðinn á vettvangi Evrópusambandsins og berast hingað vegna EES-samningsins. Langflestar reglur sem gilda hér á landi um vinnumarkaðinn koma frá ESB. Alþjóðasamstarfið er því mjög mikilvægt, því annars værum við of smá ein og sér til að hafa áhrif,“ útskýrir Sonja.

 

Einkavæðing skapar ójöfnuð
Stjórnmálaöfl sem flokka má undir nýfrjálshyggju hafa víða verið ríkjandi og fjársvelt innviði með niðurskurðarkröfu og lækkað skatta á þá ofurríku, líka hér á landi. Það blasir við að slíkt stjórnarfar hefur grafið undan opinberri þjónustu – eða hvað?

„Já, þetta er viðvarandi barátta verkalýðshreyfingarinnar. Við höfum bent á að neyðarástand ríki í félagslegu kerfunum okkar. Nær alls staðar sem litið er hefur þjónusta ekki aukist í takt við fjölgun fólks hér á landi eða aukna þjónustuþörf, t.d. vegna öldrunar þjóðar og breyttrar íbúasamsetningar. Á sama tíma hefur stjórnmálafólk í gegnum tíðina forgangsraðað lækkun skatta fram yfir útgjaldaaukningu í nauðsynlegar innviðafjárfestingar eða velferð. Fjármálastefna síðustu ríkisstjórnar fól í sér lækkandi hlutdeild opinberra útgjalda með hliðsjón af landsframleiðslu. Niðurskurðarstefna og sú mikla samþjöppun auðs sem er að verða hér á landi er skaðleg fyrir samfélagið, grefur undan lýðræði, ýtir undir stéttskiptingu, eykur hættuna á jaðarsetningu og fátækt, auknum ójöfnuði í ráðstöfunartekjum, heilsu og menntun.


„Sagan sýnir okkur að þegar fólk missir trúna á að hin hefðbundnu stjórnmálaöfl séu að vinna í sinn hag myndast frjór jarðvegur fyrir öfgaöfl og stuðningur við þau eykst.“

Þá höfum við verulegar áhyggjur af að verið sé að taka skref í átt að aukinni einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Nýir samningar við einkaaðila um liðskiptaaðgerðir bera að okkar mati öll merki þess. Í aðdraganda kosninga héldum við fund ásamt ASÍ og ÖBÍ þar sem við fengum sænska sérfræðinga til að lýsa þróun einkavæðingar þar í landi. Í stuttu máli má segja að útkoman sé ekki góð. Einkavæðingin hefur leitt til þess að fólk með minniháttar kvilla er tekið fram yfir veikara fólk því meiri gróði fylgir þeim. Einnig sést mismunun eftir menntun, búsetu og tekjum. Kostnaðurinn við að reka einkarekið heilbrigðiskerfi er svo í raun meiri en að reka opinbert heilbrigðiskerfi því erfiðara er að samhæfa þjónustuna og eftirlit er flókið og dýrt. Við leggjum því áherslu á að viðhalda sterku opinberu kerfi, því það er lykilatriði til að tryggja jöfnuð.

 

Markmiðið að öllum líði vel og njóti öryggis
Það er ekkert venjulegt starf að vera formaður stéttarfélags, heildarsamtaka eða bandalags eins og BSRB. Þetta er ekki venjulegt skrifstofustarf heldur virðist byggjast á hugsjón – að eldur brenni innra með manni fyrir frjálsu samfélagi, lýðræði og mannréttindum. Hverjar eru þínar hugsjónir fyrir BSRB og samfélagið í heild?

„Mér finnst ég mjög heppin að fá að starfa fyrir BSRB og taka þátt í baráttunni fyrir betra samfélagi. Íslenska verkalýðshreyfingin er mjög sterkt samfélagsafl sem hefur tryggt meiri jöfnuð og betri lífskjör en í flestum löndum – en þetta er viðvarandi barátta með nýjum áskorunum. Saga verkalýðsbaráttunnar kennir okkur að hugsjónir geta orðið að veruleika, það er gríðarleg hvatning til að þora að hugsa stórt og vinna að breytingum. Daniel Kahneman, Nóbelsverðlaunahafi, sagði að markmiðið ætti ekki að vera að mæla hamingju heldur að draga úr þjáningu fólks. Það lýsir vel því sem við erum að gera – tryggja að fólk nái endum saman, hafi húsnæðisöryggi, geti séð fyrir börnunum sínum, lifað mannsæmandi lífi og finni fyrir öryggi. Þetta snýst um mennskuna. Að öllum líði vel og öll hafi frelsi til að vera þau sjálf, “ svarar Sonja.

 

Rannsóknir sýna að ungu fólki líður illa, sérstaklega stúlkum
En er þetta ekki líka spurning um stjórnarfar hægri stefnu – hvernig slíkt stjórnarfar mótar líf fólks með niðurskurði og aðhaldskröfum?

„Sumir fá meðvind en aðrir mótvind í lífinu. Kerfið þarf að vera þannig að það dragi úr mótvindinum. Það eru bein tengsl milli fjárhagsstöðu og andlegrar heilsu fólks. Við vitum að andleg heilsa ungra kvenna og einhleypra mæðra er áberandi verri en annarra hópa. Aðrar rannsóknir sýna enn fremur að ungu fólki líður mjög illa, sérstaklega stúlkum. Síðastliðið haust var mikil umræða um hvernig ætti að bregðast við auknu ofbeldi ungmenna en rannsóknir sýna að til að stemma stigu við því þurfi að vinna gegn fátækt, tryggja öruggt húsnæði fyrir barnafjölskyldur, gera konum og börnum auðveldara að komast út úr heimilisofbeldi og auka stuðning í skóla við börn sem standa illa að vígi námslega og eiga við hegðunarerfiðleika að stríða.

Kannanir Vörðu sýna líka að innflytjendur búa við verri stöðu en innfæddir. Atvinnuþátttaka þeirra er gríðarlega mikil, þau vinna lengri vinnudaga, eiga erfiðara með að ná endum saman og að sjá fyrir börnum sínum, fá sjaldnast störf í samræmi við menntun sína ásamt að þau flytja oftar, þar sem þau eru frekar á leigumarkaði með tilheyrandi óöryggi.

 

Vantraust á stjórnvöld skapar frjóan jarðveg fyrir öfgaöfl
Það er ekki aðeins hér á landi sem mörg leitast við að svara spurningunum um hvers vegna dregið hafi úr félagslegri samheldni og hvers vegna félagslegur vandi sé að aukast. Fjöldinn allur af rannsóknum sýnir að ástæðan er skipan efnahagsmála – að byggt hafi verið til lengri tíma á efnahagsstefnu sem þjónar ekki fólki heldur fjármagni. Að niðurskurður í velferðarþjónustu hafi neikvæð áhrif á líðan og auki veikindi. Að skýr tengsl séu á milli ójöfnuðar, slæmrar efnahagslegar og félagslegar stöðu annars vegar og þunglyndis, kvíða, félagslegs óstöðugleika og óróleika hins vegar.

Sagan sýnir okkur að þegar fólk missir trúna á að hin hefðbundnu stjórnmálaöfl séu að vinna í sinn hag myndast frjór jarðvegur fyrir öfgaöfl og stuðningur við þau eykst.

Mér finnst mikilvægt að við áttum okkur á því hversu hratt popúlísk umræða hefur náð fótfestu. Sérstaklega varðandi hinsegin fólk, trans fólk, fólk af erlendum uppruna og konur. Mörkin hafa færst til og nú þykir eðlilegt að segja ýmislegt sem ekki þótti áður. Það er komin meiri hatursorðræða í samfélaginu og á samfélagsmiðlum, fólk upplifir minna öryggi. Við þurfum að standa saman gegn því. Við þurfum ekki að þróast í sömu átt og þau samfélög sem hafa leyft sundrungu að vaxa. Smæð okkar er ákveðinn styrkur en sterkt velferðarkerfi ásamt fræðslu og samkennd eru lykilatriði,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir að lokum.