Ráðgjafi að láni

Hægt er að sækja um "Ráðgjafa að láni"  sem felst í því að lána stofnunum ráðgjafa í tímabundna vinnu.

Ráðgjafar veita stofnunum sérfræðiþekkingu og reynslu, aðstoða við að finna leiðir til að auka ánægju starfsmanna, skilvirkni og árangur. Þeir starfa náið með stjórnendum og starfsfólki, styðja við ýmis umbótaverkefni innan stofnana og styrkja þannig grunn að markvissri stjórnun og eflingu mannauðs. Einnig gera þeir þarfagreiningu vegna starfsþróunar- eða símenntunaráætlana. 

Ráðgjafi að láni er hagkvæm lausn þar sem hlutverk ráðgjafans er skilgreint í hverju tilfelli fyrir sig með þarfir stofnunar og starfsmanna í huga. Verkefni ráðgjafans eru öll á sviði mannauðseflingar og starfsþróunar, allt frá stefnumótun í málaflokknum til einstakra verkefna. Sjóðurinn gerir samstarfssamninga við sveitarfélög og þann ráðgjafa sem þau velja eða í samvinnu við sjóðinn og oftast eru það viðkomandi símenntunarstöðvar eða Fræðslusetrið Starfsmennt sem eru samstafsaðilar.

Stjórn sjóðsins getur ákveðið að eigin frumkvæði að setja sjálf á laggirnar verkefni fyrir aðila að sjóðnum.

Umsækjendur skulu fylla út þar til gert umsóknareyðublað þar sem kemur m.a. fram lýsing á því fræðsluverkefni sem sótt er um fyrir, skipulag verkefnisins, efnisinntak, áætluð framkvæmd, kostnaðaráætlun, aðrir styrkir og framlag umsækjanda.

Sækja um hér

Við mat á umsóknum um styrki úr sjóðnum er horft til þess hvernig þau verkefni sem um ræðir séu til þess fallin að efla símenntun þeirra starfsmanna stofnana sem aðild eiga að sjóðnum og stuðla að markvissri starfsþróun þeirra.

Styrkþegar skulu gera grein fyrir notkun styrksins innan árs frá því hann var veittur, eða samkvæmt nánari ákvörðun sjóðsstjórnar.