Bókanir

Bókanir

Bókanir með samningi aðila 2020

Bókun 1 [2020]

Mismunandi meðferð vegna aldurs

Aðilar eru sammála um að ákvæði kjarasamnings sem fela í sér undanþágu starfsmanna er náð hafa 50ára aldri frá næturvöktum og/eða bakvöktum, ef þeir óska þess, feli ekki í sér brot gegn lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði. Hið sama á við um ákvæði um lengri uppsagnarfrest fyrir starfsmenn 55 ára og eldri sem hafa starfað í a.m.k. 10 ár samfellt hjá sömu stofnun.

Við vissar aðstæður getur mismunandi meðferð vegna aldurs verið réttlætanleg þegar færð eru fyrir henni málefnaleg rök sem helgast af lögmætu markmiði, þ.m.t. stefnu í atvinnumálum eða öðrum markmiðum er varða vinnumarkað, að gættu meðalhófi.

Með kjarasamningsbundum ákvæðum um undanþágu frá næturvöktum og bakvöktum eftir tiltekinn aldur er verið að horfa til þeirra sjónarmiða sem rannsóknir hafa sýnt fram á að það verði erfiðara fyrir starfsfólk eftir því sem það eldist að sinna næturvöktum þar sem það taki lengri tíma að jafna sig líkamlega vegna samspils milli vinnufyrirkomulags, svefns og dægursveiflu.

Ákvæði um lengri uppsagnarfrest með hækkandi lífaldri byggja á þeim sjónarmiðum að þegar stutt er í starfslok getur starfsfólk átt erfiðara með að finna aðra vinnu við hæfi. Evrópudómstóllinn hefur gefið aðildarríkjum nokkuð svigrúm til að ákveða að hvaða markmiðum skuli stefnt og hvaða aðgerðir séu heppilegar til að ná því markmiði. Samningsaðilar eru sammála um að markmiðin að baki þessum ákvæðum eru málefnaleg og ganga ekki lengra en nauðsynlegt er.

BÓKUN 2 [2020]

Endurskoðun 12. kafla

Samningsaðilar eru einhuga um að tímabært sé að taka til heildarendurskoðunar 12. kafla í kjarasamningi, sem fjallar um rétt starfsmanna vegna veikinda og slysa. Markmið slíkrar endurskoðunar verði meðal annars að stuðla að því að sem flestir geti verið virkir á vinnumarkaði. Viðverustefna sem stuðlar að snemmbæru inngripi getur komið í veg fyrir langtímaveikindi og jafnvel örorku á síðari stigum. Að sama skapi þarf að auka möguleika starfsmanna til aðlögunar á vinnustað eftir langtímaveikindi og við endurkomu á vinnustað eftir starfsendurhæfingu hjá VIRK. Þá verði ákvæði 12. kafla endurskoðuð með það að markmiði að skýra þau betur með tilliti til lagabreytinga og í ljósi framkvæmdar og túlkunar ákvæða.

Við endurskoðun veikindakaflans verði meðal annars hugað að sameiginlegri skilgreiningu á hugtökunum langtíma– og skammtímaveikindi og framkvæmd talningar veikindadaga samræmd. Þá verði grein um veikindi barna yngri en 13 ára skoðuð og metið hvort hún ætti að fjalla um veikindi nákominna. Enn fremur verði fjallað um áhrif persónuverndarlaga og annarra laga á ákvæði 12. kafla ásamt því að ákvæði verði skýrð betur með það að markmiði að lesendur kjarasamnings fái betri yfirsýn um hvað ákvæðin fela í sér.

Með þessi markmið að leiðarljósi verður unnið að endurskoðun 12. kafla á samningstímanum. Vinna við endurskoðun 12. kafla hefst 17. ágúst 2021 og gert er ráð að henni ljúki eigi síðar en 1. maí 2022. Náist samstaða innan hópsins um breytingar á grein um veikindi barna yngri en 13 ára eru samningsaðilar ásáttir um að hún geti tekið gildi á samningstímanum, eftir nánara samkomulagi aðila þar að lútandi.

BÓKUN 3 [2020]

Mötuneyti

Aðilar eru sammála um að fyrirkomulag mönnunar mötuneyta sé á ábyrgð rekstraraðila, en hvetja þá til að skipuleggja starfsemina í samræmi við aðstæður á hverjum stað og í góðri sátt við starfsmenn. Stéttarfélag viðkomandi starfsmanna getur óskað eftir skoðun á mönnun í mötuneyti ef margir þjónustuþegar hafa sérþarfir í matarræði sem kallar á aukið umfang starfseminnar.

BÓKUN 4 [2020]

Tímakerfi

Aðilar eru sammála um að setja á fót starfshóp sem hefur það hlutverk að ræða framkvæmd tímavinnukerfa s.s. vinnustundar og koma með tillögur að úrbótum til rekstraraðila. Skal hún skipuð eigi síðar en 1. mars 2020 og skal hún leggja sínar tillögur fyrir samstarfsnefndir aðila eigi síðar en 1. nóvember 2020. Ríkissáttasemjari boðar aðila til fyrsta fundar.

BÓKUN 5 [2015]

Trúnaðarmenn

Aðilar eru sammála um að réttur trúnaðarmanna til að sækja trúnaðarmannanámskeið án skerðingar á reglubundnum launum í allt að eina viku á ári, á við um vaktavinnufólk sem heldur sínu vaktaálagi.

BÓKUN 6 [2020]

Símenntun starfsfólks sundlauga

Starf sundlaugarvarðar felst m.a. í sundlaugargæslu samkvæmt reglugerð nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum. Samkvæmt reglugerðinni ber eigendum sund- og baðstaða að sjá til þess að starfsfólk fái reglulega starfsþjálfun.

Aðilar eru sammála um að forstöðumaður sundlaugar beri að skapa sundlaugarvörðum svigrúm til sundþjálfunar, verklegra æfinga vegna björgunar í laug og æfingum vegna neyðaráætlunar. Útfærsla símenntunar á vinnustaðnum skal vera hluti af starfsþróunaráætlun hans og unnin í samstarfi vinnuveitenda og starfsfólks.

BÓKUN 7 [2020]

Starfsmennt og Mannauðssjóðir

Í sífellt fjölbreyttara starfsumhverfi sveitarfélaga er mikilvægt að efla símenntun starfsmanna til að mæta þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra um þjónustu á hverjum tíma.

Til að ná framangreindu markmiði mun Samband íslenskra sveitarfélaga stefna að aðild að Fræðslusetrinu Starfsmennt.

Með samstarfi samningsaðila og Starfsmenntar er stefnt að því að koma á auknu framboði starfstengdra námskeiða fyrir starfsmenn sveitarfélaga.

Forsenda aðildar Sambands íslenskra sveitarfélaga að Starfsmennt er að samhliða verði mannauðsjóðir Samflots, Kjalar og KSG sameinaðir í einn Mannauðssjóð bæjarstarfsmannafélaga.

BÓKUN 8 [2020]

Starfsmatskerfið Samstarf

Aðilar eru sammála um að á árinu 2020 hefji fagleg samráðsnefnd Samstarfs reglulega endurskoðun og uppfærslu starfsmatskerfisins.

Helstu verkefnin sem ráðist verður í eru:

  • Gæðaúttekt á starfsmatskerfinu
  • Yfirfara starfsreglur
  • Matsaðferðir samræmdar milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar.
  • Skoða þróun starfsmatskerfisins í Bretlandi og vinna að úrbótum á starfsmatskerfinu kerfinu í samráði við höfundarétthafa.
  • Skoða þarf útgefnar starfsmatsniðurstöður og bera saman við störf sem hafa fengið starfsmat á landsvísu.
  • Heildarendurskoðun á útgefnum störfum.

Bókun 9 [2020]

Um sérákvæði

Aðilar eru sammála um að sérákvæði einstakra stéttarfélaga sem fylgdu fyrri kjarasamningi haldi áfram gildi sínu.

BÓKUN 10 [2020]

Um launaþróunartrygging

BSRB og opinberir launagreiðendur stefna að því í samvinnu við önnur heildarsamtök opinberra starfsmanna að semja um launaþróunartryggingu fyrir tímabilið 2019 til 2022. Launaþróunartryggingu er ætlað að tryggja að launaþróun sé að jafnaði svipuð hjá opinberum starfsmönnum og á almennum vinnumarkaði og er þannig ætlað að tryggja að opinberir starfsmenn haldi í við almenna launaþróun á samningstímabilinu.

Eldri bókanir

BÓKUN 3 [2015]

Um launaupplýsingar

Samningsaðilar eru sammála um að á gildistíma kjarasamnings verði samkomulag um skil á launaupplýsingum endurskoðað.

Bókun 3 [2014]

Um jafnræði í launum óháð stéttarfélagsaðild

Aðilar eru sammála um að beina þeim tilmælum til sveitarfélaga að jafnræðis verði gætt í launum þeirra starfsmanna sem vinna sömu og/eða sambærileg störf innan sveitarfélags, óháð stéttarfélagsaðild.