Nokkrar starðreyndir um vaktavinnu

Vaktakerfi geta verið föst eða breytileg

Ef vaktakerfi er ekki fast þ.e. rúllar eins allt árið er skylt að leggja fram vaktskrá með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara. Þannig að 1 ágúst liggur fyrir vaktskrá septembermánaðar og svo koll af kolli.

Lengd vaktar

Vaktir skulu að jafnaði vera 4 - 10 klukkustunda langar. Hægt er með samkomulagi starfsmanna og forráðamanna stofnunar ásamt skriflegu samþykki samningsaðila að semja um aðra tímalengd vakta - Kjölur stéttarfélag er alfarið á móti lengri vöktum en tíu tímum.

Breytingar á vaktskrá, starfshlutfalli

Breytingar á föstum vöktum, sem hefur áhrif á launakjör starfsmanna, skal tilkynna með jafnlöngum fyrirvara og réttur starfsmanns til uppsagnarfrest er. Almennt er það 3 mánaða fyrirvari. Ekki er hægt að breyta starfshlutfalli einhliða af hendi stofnunar. Ef yfirmaður óskar eftir að breyta starfshlutfalli starfsmanns þarf alltaf að leita samþykkis hjá starfsmanninum fyrst. Starfshlutfalli er breytt með 3 mánaða fyrirvara hjá fastráðnum starfsmanni. Ef vinnuveitandi breytir starfshlutfalli fyrirvaralaust og án samþykkis starfsmanns, þá jafngildir það uppsögn ráðningarsamnings.

Samfelldur vinnutími

Vinnutími skal vera samfelldur eftir því sem við verður komið.

Matar og kaffitímar

Vaktavinufólk hefur ekki sérstakan matar- og kaffitíma. Vaktavinnumenn hafa ekki sérstakan matar- og kaffitíma. 

Breyting á vaktskrá

Eftir að vaktskrá hefur verið lögð fram er óheimilt að breyta henni án samþykkis þeirra starfsmanna sem breytingin nær til. Ef vaktskrá er breytt með 7 daga fyrirvara eða minna skal greiða viðkomandi starfsmanni aukalega 2 klst í yfirvinnu fyrir vaktina. Ef vaktskrá er breytt með skemmri fyrirvara en 24 klst. skal greiða viðkomandi starfsmanni aukalega 3 klst í yfirvinnu fyrir vaktina. ATH hér er eingöngu átt við breytingar á skipulögðum vöktum en ekki aukavöktum.

Yfirvinna, aukavakt

Öll vinna umfram daglega vinnuskyldu/ vakt greiðist með yfirvinnukaupi. Það sama á við um hlutavinnufólk sem uppfyllt hefur vinnuskyldu sína. Aukavakt greiðist með yfirvinnukaupi en ekki vaktaálagi sama á hvaða tíma sólarhringsins unnið er. Heimilt er í undantekningartilfellum, með góðum fyrirvara og með samráði við starfsmann að auka starfshlutfall starfsmanns í hlutavinnu ef bregðast þarf við aðstæðum sem vara a.m.k. í 1 mánuð (vegna sumarorlofa, langvarandi veikinda og fl). Þetta á ekki við um tilfallandi aukavinnu. Taki starfsmaður aukavakt, með minna en 24. klst. fyrirvara á tímabilinu kl. 17:00-24:00 á föstudögum, kl. 24:00-08:00 mánudaga til föstudaga, kl. 00:00-24:00 laugardaga, sunnudaga og sérstaka frídaga, sbr. gr. 2.1.4.2 miðað við 8 klst. vakt, skal greiða 2 klst. í yfirvinnu og hlutfallslega fyrir lengri eða styttri vaktir.

Hvíldartími og frídagar

Starfsmenn eiga að fá 11 stunda samfelda hvíld á hverju 24 stunda tímabili. Heimilt er að stytta hvíldina í 8 klst á skipulögðum vaktskiptum (t.d. af kvöldvakt yfir á morgunvakt) en slíkt má ekki gerast oftar en einu sinni í viku. Starfsmaður á að jafnaði að fá tvo samfellda frídaga í viku með næturhvíld á undan og eftir. Heimilt er vegna sérstakra ástæðna að fresta vikulegum hvíldardegi um eina viku.

Stofnun lokar á rauðum dögum

Starfsmaður vinnur vaktavinnu og á skipulagða vakt um jól en stofnunin lokar þann dag. Það er ekki hægt að færa til vinnutíma starfsmanns. Yfirmanni er í sjálfsvald sett hvort hann kallar starfsmanninn til vinnu þennan dag eða gefi honum frí. Launin skerðast ekki, tímarnir koma til uppfyllingar vinnuskyldu, og starfsmaður þarf ekki að vinna daginn af sér síðar.