Styrktarsjóðurinn Klettur gerir breytingar á úthlutunarreglum

Breytingar á úthlutunarreglum styrktarsjóðsins Kletts tóku gildi frá og með 1.janúar 2026.

Stjórn sjúkrasjóðs hefur samþykkt nokkrar breytingar á reglum sjóðsins. Breytingarnar snúa meðal annars að hámarksgreiðslum sjúkradagpeninga, takmörkunum á greiðsludögum við endurhæfingu, fjölbreyttari styrkjum vegna meðferða, og endurskoðun á einstökum styrkjum.

Hér að neðan má sjá helstu atriði breytinganna:

Þak á sjúkradagpeninga

Sett verður þak upp á 850.000 kr. á mánaðarlegar greiðslur sjúkradagpeninga.
Þakið nær aðeins til greiðslna hvers mánaðar – ef hluti annars mánaðar er greiddur síðar, telst það ekki sem skerðing heldur hámarksupphæð sem greidd er fyrir hvern mánuð í veikindum.

Takmörkun greiðsludaga fyrir þá í endurhæfingu

Sjóðsfélagar sem eru í eða stefna á endurhæfingu eiga framvegis að hámarki 30 daga rétt til sjúkradagpeninga úr sjóðnum.
Þetta á við um þá sem sækja eða hyggjast sækja um sjúkra- og endurhæfingargreiðslur hjá TR.
Frá 1. september 2025 tóku slíkar greiðslur við af endurhæfingarlífeyri hjá TR og má nú fá greiðslur á meðan einstaklingur er í eða bíður meðferðar, getur ekki nýtt sér meðferð vegna veikinda eða er í atvinnuleit eftir endurhæfingu.

Fjölbreyttari meðferðarúrræði

Sjóðsfélagar geta framvegis sótt um styrk til eftirmeðferðar vegna áfengis- eða vímuefnameðferðar á fleiri meðferðarstofnunum innanlands ekki eingöngu hjá Heilsustofnun NLFÍ.
Hámarksfjöldi styrkhæfra daga (28 dagar) helst óbreyttur.
Aukning hefur orðið á umsóknum þar sem óskað er eftir stuðningi til áframhaldandi meðferðar eftir dvöl á Vogi, enda getur eftirmeðferð verið kostnaðarsöm.

Lækkun tannlæknastyrks

Hámarksupphæð tannlæknastyrks lækkar úr 150.000 kr. í 110.000 kr. á hverju réttindatímabili.

Hækkun iðgjaldaviðmiðs fyrir fullan fæðingarstyrk

Viðmið greiddra iðgjalda síðustu 12 mánuði fyrir fæðingu barns hækkar úr 33.300 kr. í 45.000 kr. til að fá fullan fæðingarstyrk (240.000 kr.).
Hækkunin tryggir þó að þeir sem vinna í fullu starfi á lágmarkslaunum ná viðmiði fyrir fullan styrk.
Sjóðsfélagar sem ekki ná viðmiðinu fá hlutfallslegan styrk miðað við greidd iðgjöld.
Breytingin tekur gildi fyrir börn fædd 1. janúar 2026 eða síðar.

 

Nánari upplýsingar um styrktarsjóðinn Klett má finna hér