Orlofsblaðið eingöngu rafrænt -Nýtt úthlutunarkerfi

Orlofsblaðið er eingöngu rafrænt að þessu sinni sjá hér

Klukkan tíu þann 3. apríl verður opnað fyrir umsóknir félaga um orlofshús og orlofsíbúðir Kjalar fyrir sumarorlofstímabilið 2. júní til og með 8. september. Úthlutun verður nú með nýju sniði en í stað úthlutunarfyrirkomulags á grundvelli á punktastöðu, líkt og stuðst hefur verið við síðustu ár, gildir sú regla að fyrstur kemur – fyrstur fær.

Rætt var um fyrirkomulag úthlutana orlofshúseigna á félagsmannafundum Kjalar í haust og í ljósi þeirrar umræðu var það niðurstaða stjórnar félagsins að taka þetta nýja fyrirkomulag upp til reynslu. Ýmis rök hníga að því að tímabært sé orðið að stíga þetta skref. Sjá má af þróun í nýtingu orlofseignanna að félagsmenn nýta þær nú til dags ekki síður að vetri sem sumri og sömuleiðis hefur stytting vinnuvikunnar vafalítið einnig haft áhrif í þessa átt.

Þrátt fyrir að punktakerfið sé ekki lengur grundvöllur úthlutana er það engu að síður virkt og áfram verður haldið utan um punktastöðu félagsmanna og punktasöfnun. Hvort það verður aftur nýtt sem grunnur úthlutunar ræðst af því hvernig reynsla verður af nýja úthlutunarkerfinu í ár.

Úthlutunarkerfið fyrstur kemur – fyrstur fær gildir utan sumarorlofstímabilisins með sama hætti og áður. Opið er fyrir yfirstandandi mánuð og þrjá mánuði fram í tímann til bókana. Þann 1. júní opnast bókanir fyrir septembermánuð, þann 1. júlí fyrir októbermánuð og síðan koll af kolli.