Að lokum kvennaárs - en hvað svo?

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hagfræðingur BSRB og Steinunn Bragadóttir, hagfræðingar hjá ASÍ
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hagfræðingur BSRB og Steinunn Bragadóttir, hagfræðingar hjá ASÍ

Á Kvennaári 2025 höfum við tekið saman tölfræði og sett í samhengi við kröfur kvennaárs. Kröfurnar varða aðgerðir til að eyða kynbundnum launamun, jafna fjölskylduábyrgð og uppræta kynbundið ofbeldi. Þrátt fyrir áratuga jafnréttisumræðu sýna greiningar Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur og Steinunnar Bragadóttur, hagfræðinga BSRB og ASÍ, að kynbundið misrétti er enn rótgróið í íslensku samfélagi og birtist á mörgum sviðum vinnumarkaðarins. Í nýjustu grein þeirra, og þeirri síðustu á þessu ári, fjalla þær m.a. um hvernig launamunur kynjanna, kynskiptur vinnumarkaður og ójöfn skipting umönnunar- og heimilisábyrgðar vinna saman að því að viðhalda þessum ójöfnuði.

Konur eru oftar í hlutastörfum og með lægri tekjur en karlar, meðal annars vegna ábyrgðar á ólaunuðum störfum á heimilum. Þetta hefur ekki aðeins áhrif á tekjur á starfsævinni heldur einnig á réttindi síðar á ævinni, svo sem lífeyrisgreiðslur. Þá benda höfundar á að störf þar sem konur eru í meirihluta séu kerfisbundið vanmetin í launasetningu sem endurspeglar viðvarandi kynbundið misrétti í virðismati starfa.

Í greininni er jafnframt dregið fram að ákveðnir hópar kvenna, svo sem innflytjendakonur, búi við tvöfalda mismunun á vinnumarkaði. Þá er kynbundið ofbeldi nefnt sem alvarlegt samfélagslegt vandamál sem hefur víðtæk áhrif á öryggi, þátttöku á vinnumarkaði og lífsgæði kvenna.

Að lokum leggja þær áherslu á að raunverulegt jafnrétti náist ekki nema með samhæfðum aðgerðum. Þar nefna þær meðal annars þörfina á að bæta umönnunarinnviði, tryggja sanngjarna skiptingu fæðingarorlofs, endurskoða virðismat starfa og efla markvissa stefnumótun gegn kynbundnu ofbeldi.

Lesa má greinina í heild sinni hér af síðu BSRB