Við sköpum verðmætin!

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar stéttarfélags
Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar stéttarfélags
  1. maí – Alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins, kvennaár 2025 og 100 ára afmælis kröfugöngu á Akureyri

Kæru félagar,

Til hamingju með daginn!

Þetta er dagurinn sem á djúpar rætur í sögu alþýðunnar, þar sem krafist hefur verið réttlætis, virðingar og mannsæmandi lífsskilyrða fyrir allt vinnandi fólk, óháð starfi, kyni eða uppruna. Hann hófst á Akureyri árið 1925 og því minnumst við þess sérstaklega á Akureyri. Sem var upphafið að hefð sem hefur lifað í heila öld – hefð þar sem fólk sameinast friðsamlegri og öflugri kröfugöngu, með skýr skilaboð um réttlæti, jafnrétti og betra samfélag. Nú gengur öll verkalýðshreyfingin sameiginlega undir slagorðinu „Við sköpum verðmætin“ þar sem einnig er minnst að 50 ár eru liðin frá fyrsta kvennafrídeginum (verkfallinu) og verður haldið á lofti allt árið undir merkjum „Kvennaár2025“ ber okkur einnig að varpa ljósi á mikilvægi jafnréttisbaráttunnar – að tryggja konum jafnan rétt til starfa, launa og þátttöku í ákvörðunum sem snerta líf þeirra og samfélagið allt. Barátta kvenna og verkalýðsins fer saman – því að réttlæti og jöfnuður eru ekki sérmál, heldur sammannleg gildi.

Þrátt fyrir áratuga baráttu er enn langt í land með að ná fullu jafnrétti á Íslandi. Konur og kvár verða fyrir kerfisbundinni mismunun, launamun, kynbundnu ofbeldi og skertri stöðu á vinnumarkaði. Sérstaklega illa stendur á með konur af erlendum uppruna, hinsegin konur, fatlaðar konur og heimilislausar. Við stöndum saman í þeirri trú að með samstöðu og samtali getum við byggt réttlátara og betra Ísland fyrir alla. Það er ekki síst vegna þess að konur hafa alla tíð staðið í fararbroddi í baráttu fyrir bættum kjörum, jafnræði og réttindum – oft undir tvöföldum þunga.

Konur eru áberandi nú 1. maí – áfram stelpur!

Félagskveðja

Um sögu táknsins 1. maí 2025.
Upphaf Rauðsokkahreyfingarinnar er að rekja til 1. maí 1970 þegar konur á rauðum sokkum mættu í kröfugöngu verkalýðsins með risastóra Venusarstyttu og lögðu fram kröfur sínar um kvenfrelsi. Fjölmiðlar sögðu frá því að Rauðsokkahreyfingin hefði borið styttuna í óþökk fulltrúaráðs verkalýðshreyfingarinnar og nokkuð stapp var um hvort þær fengju að taka þátt í göngunni og úr varð að þær gengu aftast.
Nú, 55 árum síðar, býður fulltrúaráð verkalýðsins í Reykjavík konum á rauðum sokkum að ganga fremst í kröfugöngunni með endurgerða Venusarstyttu í broddi fylkingar. Upprunalega Venusarstyttan var gerð af Jóni Benediktssyni sem jafnframt á höfundarétt að henni fyrir leikmynd Messíönu Tómasdóttur í leikritinu Lýsisströtu. Eva Ísleifs myndlistakona annaðist endurgerð styttunnar.