Vel heppnaðir fundir og námskeið fyrir trúnaðarmenn

Dagana 8. og 9. nóvember komu trúnaðarmenn og stjórn Kjalar saman til námskeiðs- og fundahalda í Skipagötu 14 á Akureyri. Námskeiðin og fundirnir þóttu heppnast mjög vel og ríkti mikil ánægja meðal þátttakenda, sem voru rúmlega 20 talsins.

Dagskráin hófst báða dagana kl. 9 að morgni og lauk kl. 16 auk þess sem hópurinn borðaði saman hádegisverð báða dagana og kvöldverð á fimmtudagskvöldið.

Að morgni 8. nóvember komu Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, og Kristinn Bjarnason, hagfræðingur BSRB, og ræddu samningamálin út frá ýmsum hliðum. Eftir hádegishlé fór Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar, yfir ýmis hagnýt mál tengd starfsemi félagsins. Að því búnu var skipt í hópa og hin ýmsu mál rædd, undir fundarstjórn Braga V. Bergmann, frá Fremri Almannatengslum. Hóparnir skiluðu síðan hver um sig tillögum um hvaða mál ættu að vera efst á lista í kröfugerð Kjalar í komandi kjarasamningaviðræðum.

Á föstudeginum tók hópurinn þátt í vinnustofu sem bar yfirskriftina „Sjálfsefling og samskipti“ en stjórnandi var Sigurlaug Gröndal, leiðbeinandi frá Félagsmálaskóla alþýðu. Dagskránni lauk með litlu happadrætti meðal þátttakanda áður en þeir héldu heim á leið. „Ég held að allir hafi verið glaðir með það hvernig til tókst,“ segir Arna Jakobína, formaður Kjalar. Hún segir fundi sem þessa nauðsynlega fyrir trúnaðarmenn til að geta sinnt starfi sínu sem best, en þeir séu auðvitað að sækja fræðslu í þágu allra félagsmanna á vinnustað sínum. „Við sem skipum samninganefnd félagsins fengum líka mjög gott veganesti frá trúnaðarmönnunum því niðurstaðan í öllum hópum var einróma. Forgangsatriðin í kröfugerð okkar verði styttri vinnuvika, krónutöluhækkun launa og aukinn persónuafsláttur. Afnám verðtryggingar, lækkun vaxta og lengra fæðingarorlof voru fólki líka mjög hugleikin.“