Trúnaðarmannastarf

Helga Hafsteinsdóttir, tengiliður trúnaðarmanna Kjalar stéttarfélags
Helga Hafsteinsdóttir, tengiliður trúnaðarmanna Kjalar stéttarfélags

Trúnaðarmannakjör Kjalar stéttarfélags var í september- október 2022. Kosningin er til tveggja ára í senn. Kjörnir trúnaðarmenn eru tæplega 60 af öllu félagssvæðinu. Kjölur stéttarfélag leggur mikinn metnað í það að vera í góðu samstarfi við trúnaðarmenn sína, bæði rafrænt og með staðarfundum sem eru a.m.k. tvisvar á ári, vor- og haustfundi og ráðstefnur. Nú síðast sátu trúnaðarmenn þrjá annasama vinnudaga í lok október þar sem auk fræðslu, voru kjara-og réttindamál fyrirferðarmikil og hugmyndum þeirra til enn frekari uppbyggingar á félagsstarfinu almennt. Líflegar umræður og skoðunarskipti urðu til þess að lögð voru fyrstu drög að kröfugerð vegna komandi kjarasamningagerðar. Fram undan er trúnaðarmannaþing þar sem tekinn verður upp þráðurinn þar sem frá var horfið.

Þá tók trúnaðarmannahópurinn að sér að vera í forsvari fyrir starfsgreinadeildum innan félagsins. Starfsgreinadeildir eru stofnaðar þvert á félagið. Hlutverk starfsgreinadeilda er að mynda sameiginlegan starfsvettvang til að efla faglega þætti starfanna og hagsmuni um kjara- og réttindamál. Settar voru þá þegar á fót starfsdeildir fyrir; -Starfsfólk á leikskólum, -starfsfólk í grunn- og framhaldsskólum, - starfsfólk í íþróttamannvirkjum og fyrir starfsfólk í umhverfis- og mannvirkjastofnunum. Fleiri starfsgreinadeildir eiga eftir að líta dagsins ljós á þessu ári. Það eru hrein forréttindi að fá að starfa með þessu frábæra og vinnusama fólki sem trúnaðarmenn Kjalar eru upp til hópa um leið og við reynum nýta okkur alla þessa orku og hugmyndir til góðra verka.

Helga Hafsteinsdóttir

Tengiliður trúnaðarmanna Kjalar stéttarfélags