Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu nýtt sameinað félaga

Tvö aðildarfélaga BSRB sameinuðust formlega á aðalfundum félaganna sem haldnir voru á laugardag. SFR stéttarfélag í almannaþágu og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar voru sameinuð undir nafninu Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu og er nú þriðja stærsta stéttarfélag landsins. Kjölur stéttarfélag óskar félagsmönnum Sameykis innilega til hamingju með sameinguna og nýja nafnið.

Ákvörðun um sameininguna lá fyrir að lokinni allsherjaratkvæðagreiðslu í byrjun nóvember en á aðalfundum félaganna á laugardag voru ný lög og heiti sameinaðs félags samþykkt. Höfuðmarkmið sameiningarinnar er að verða enn sterkari í kjara- og hagsmunabaráttunni og auka þjónustu við félagsmenn.

Formaður Sameykis stéttarfélags er Árni Stefán Jónsson, áður formaður SFR, og varaformaður er Garðar Hilmarsson, áður formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Eftir sameiningu eru félagsmenn um ellefu þúsund og starfa við almannaþjónustu hjá ríki, borg, sveitarfélögum og fyrirtækjum í meirihluta eigu opinberra aðila.