Laun bæjarstarfsmanna hækka um 1,5% frá 1. janúar 2019

Laun starfsmanna sveitarfélaga, Dalbæjar og Hjallastefnu munu hækka um 1,5 prósent frá 1. janúar 2019 eftir að samkomulag um framhald launaþróunartryggingar opinberra starfsmanna var undirritað í gær.

Mögulega mun hækkunin koma til framkvæmda frá næstu mánaðarmótum hjá einhverjum vinnustöðum en hjá öðrum um mánaðarmótin maí-júní. Hækkunin er aftur virk frá 1. janúar. Launaþróunartryggingin varð til með undirritun rammasamkomulags milli ríkisins, sveitarfélaga, BSRB, ASÍ og Samtaka atvinnulífsins í október 2015.

Þetta er þriðja og síðasta mælingin þar sem borið er saman launaskrið á almenna markaðinum og hinum opinbera. Opinberum starfsmönnum er í kjölfarið bætt upp það launaskrið sem orðið hefur á almenna markaðinum umfram það sem orðið hefur á þeim opinbera. Tilgangurinn með launaþróunartryggingunni er meðal annars sá að tryggja að laun á opinbera vinnumarkaðinum sitji ekki eftir og að þar með myndist uppsöfnuð þörf á hækkun þegar kemur að kjarasamningum.

Hækkanirnar sem fást vegna hennar koma til viðbótar við kjarasamningsbundnar hækkanir. Þetta var þriðja og síðasta mælingin á launaskriði vegna samninga aðildarfélaga BSRB sem runnu út í lok mars. Ein af kröfum BSRB í kjarasamningsviðræðum sem nú eru í gangi er að nýtt samkomulag um launaskriðstryggingu verði undirritað til að tryggja félagsmönnum aðildarfélaga bandalagsins sama launaskrið og mælist á almenna vinnumarkaðinum.