Gleðilegt nýtt ár! Ávarp formanns Kjalar stéttarfélags

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar stéttarfélags
Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar stéttarfélags

Árið sem er að líða var fyrsta starfsárið eftir stóru sameininguna sem varð undir lok ársins 2021 þegar Starfsmannafélag Dala og Snæfellsnessýslu, Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum, Starfsmannafélag Fjallabyggðar og Starfsmannafélag Fjarðabyggðar sameinuðust undir merki Kjalar stéttarfélags. Að mörgu hefur verið að hyggja því við sameininguna urðu skrifstofur Kjalar þrjár; á Akureyri, í Grundarfirði og á Ísafirði. Samræma þurfti vinnubrögð og flytja verkefni á milli skrifstofa og er áfram unnið í því. Þetta er líka árið sem allt fór á fulla ferð eftir takmarkanir vegna Covid. Nú eru á ný haldnir félagsmannafundir, vinnustaðafundir, trúnaðarmannafundir og fræðsludagar en auk þess sóttu fulltrúar úr stjórn norræna ráðstefna um fjarvinnu og áskoranir til framtíðar á vinnumarkaði.

Þá tók undirrituð þátt í vinnudegi á vegum félags- og vinnumarkaðsráðherra vegna endurskoðunar á lögum um framhaldsfræðslu, sem og pallborðsumræðu í tilefni að 20 ára afmæli Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og vinnufundi um betri vinnutíma í vaktavinnu á opinbera markaðnum. Þá tók undirrituð jafnframt við formennsku í NTR (norrænt samstarf). Í öllum tilfellum var um að ræða mjög þörf og spennandi verkefni sem standa félagsmönnum Kjalar stéttarfélags mjög nærri. Allt eru þetta málefni sem styrkja stöðu okkar fólks á vinnumarkaði og snúast um símenntun, stafræn þróun og hæfni. Í því sambandi er raunfærnimat á móti hæfniviðmiði mikilvægast til að fólk geti styrkt sig á vinnumarkaði. Þannig fær það niðurstöðu í mati á sinni hæfni til starfa ásamt leiðbeiningu um hvað það þurfi til að gera sig hæfari á vinnumarkaði með tilliti til framtíðarinnar.

Stóri skuggi ársins er án efa stríðið í Úkraníu og þau áhrif sem það hefur á alla. Við munum sjá enn víðtækari áhrif, fari stríðsrekstrinum ekki að linna. Stríðið minnir mann óneitanlega á hve völd eins manns geta verið mikil, svo mikil að nágrannaþjóð er lögð í rúst og allt sem á vegi innrásaliðsins verður. Óvissan vofir yfir. Við stöndum frammi fyrir vöruskorti í heiminum og hækkandi hrávöruverði sem hefur mikil áhrif á velsæld samfélaganna.

Kjarasamningur okkar eru lausir frá 31. mars næstkomandi, fyrir utan Norðurorku og Orkubú Vestfjarða sem fylgja almenna markaðnum og eru því lausir eða eru að losna. Í komandi kjaraviðræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga og ríkis verður lögð áhersla á að festa vinnutímastyttingu dagvinnufólks í 36 tíma á viku. Hvað varðar vaktavinnu þá þarf að standa vörð um þau leiðarljós að öryggi starfsfólks og skjólstæðinga verði aukið, þannig að vaktavinna verði eftirsóknarverðari og að vinnutími og laun taki mið af vaktabyrði og verðmæti staðins tíma. Auk þess verður lögð mikil áhersla á í kjarasamningaviðræðunum að vinna að bættri andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu starfsfólks í vaktavinnu og auka stöðugleika í starfsmannahaldi.

Launamunur karla og kvenna er okkur endalaust áhyggjuefni en með starfsmatinu við sveitarfélögin hafa sömu laun verið tryggð fyrir dagvinnu en ekki fyrir heildarlaun. Við tökum heils hugar undir þá áherslu BSRB að gera sérstaka kvennakjarasamninga þar sem 70% félagsfólks okkar eru konur á lágum launum hjá sveitarfélögunum. Almennt eru atvinnutekjur karla 21,9% hærri en kvenna og helsta ástæðan er kynjaskipt náms- og starfsval. Þessi launamunur jafngildir því að konur vinna launalaust í dagvinnu eftir kl. 15:15 á daginn. Eftirstöðvar frá kjarasamningum áriði 2016 eru enn ólokið sem er jöfnun launa milli markaða en vinnan hefur staðið yfir síðan þá og er komin tími á að verði lokið  áður er viðræður um skammtímasamning verður tekinn til umræðu. Um þetta er samstaða milli BSRB, BHM og KÍ. 

Trúnaðarmannakjör Kjalar stéttarfélags var í september 2022 og eru trúnaðarmenn tæplega 60 af öllu félagssvæðinu. Nýkjörnir trúnaðarmenn sátu þrjá annasama vinnudaga í lok október þar sem lagt var á ráðin með kjaramál og félagsstarfið. Þá tók trúnaðarmannahópurinn að sér að vera í forsvari fyrir starfsgreinadeildir innan félagsins sem eru fyrir starfsfólk á leikskólum, í grunn- og framhaldsskólum, íþróttamannvirkjum og umhverfis- og mannvirkjastofnunum. Síðar koma til með að verða stofanaðar fleiri deildir.

Ágætu félagar!

Fyrir réttu ári vorum við að takast á við takmarkanir og sáum ekki alveg fram á veginn hvað það varðaði en með samtakamætti okkar tókst að létta af hömlum. Þó geysar farsóttin enn og full ástæða fyrir okkur öll að fara varlega.

Félagsmönnum og starfsmönnum Kjalar stéttarfélags óska ég gleðilegs nýs árs með kærum þökkum fyrir samskiptin á árinu sem er að líða. Sérstakar þakkir fær Margrét Árnadóttir en starfslok hennar á skrifstofu Kjalar á Akureyri var á árinu og eru henni færðar þakkir fyrir starf sitt í þágu félagsins til fjölda ára og óska ég henni velfarnaðar í framtíðinni.

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður