Foreldraorlof

Foreldraorlofið er vannýttur réttur

Foreldraorlof er leyfi frá launuðum störfum sem stofnast til við fæðingu, frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Foreldraorlofi fylgir ekki réttur til greiðslu launa úr Fæðingarorlofssjóði.

Leyfinu er ætlað til umönnunar barns starfsmanns og veitir foreldri sjálfstæðan rétt til að taka 4 mánaða launalaust leyfi eftir að hafa starfað samfellt í sex mánuði hjá sama vinnuveitanda. Rétturinn fellur niður þegar barnið nær átta ára aldri.  Heimilt er að taka það í einu lagi eða eftir samkomulagi við atvinnurekanda.

Hvað er foreldraorlof?

Foreldrar sem eru starfandi á íslenskum vinnumarkaði eiga rétt á fjögura mánaða launalausu foreldraorlofi. Rétturinn fellur niður við 8 ára aldur barns. Hvort foreldri um sig á sjálfstæðan rétt til foreldraorlofs sem er ekki framseljanlegur. Foreldraorlofsrétturinn skiptist þannig að hvort foreldri um sig á sjálfstæðan og óframseljanlegan rétt til fjögurrra mánaða orlofs til að annast barn sitt. Þau réttindi sem starfsmaður hefur þegar áunnið sér eða er að ávinna sér á upphafsdegi foreldraorlofs haldast óbreytt til loka orlofsins ásamt þeim breytingum sem kunna að hafa orðið á áunnum réttindum á grundvelli laga eða kjarasamninga.

Foreldri á rétt á að taka foreldraorlof í einu lagi en með samkomulagi við atvinnurekanda er heimilt að haga því með öðrum hætti. Vinnuveitandi skal leitast við að koma til móts við óskir starfsmanns.

Að öðru leyti er fer um foreldraorlof alveg eins og fæðingarorlof, það ber að tilkynna skriflega, það verndar starfsmann frá uppsögnum og rétturinn ávinnst með sama hætti.

 

Ráðningarsamband

Ráðningarsambandi starfsmanns og atvinnurekanda er viðhaldið á orlofstímanum. Óheimilt er að segja starfsmanni upp vegna þess að hann hefur tilkynnt um töku foreldraorlofs eða þegar hann er í foreldraorlofi. Starfsmanni er tryggður réttur til að hverfa aftur að starfi sínu að loknu orlofinu. Sé þess ekki kostur á hann rétt á sambærilegu starfi hjá atvinnurekandanum í samræmi við ráðningarsamninginn. Brjóti atvinnurekandi gegn ákvæðum laga um fæðingar- og foreldraorlof er hann skaðabótaskyldur.

Hvenær þarf að tilkynna?

Foreldri sem hyggst nýta sér rétt til foreldraorlofs skal tilkynna vinnuveitanda það eins fljótt og kostur er eða í síðasta lagi 6 vikum fyrir fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins.

Tilkynning þarf að vera skrifleg og í henni á að koma fram upphafsdagur, lengd og tilhögun orlofs. Atvinnurekandi á að árita á tilkynninguna hvaða dag hún er móttekin og afhenda starfsmanni síðan afrit hennar. Atvinnurekandinn þarf að skrá töku foreldraorlofs starfsmanns þannig að starfsmaður geti fengið vottorð um fjölda tekinna foreldraorlofsdaga óski hann þess. 

Atvinnurekandi getur að höfðu samráði við starfsmann ákveðið breytta tilhögun á töku foreldraorlofs. Til þess þarf hann að hafa gildar ástæður, t.d. að álagstími fari í hönd þegar starfsmaður hyggst taka foreldraorlof eða ef ekki tekst að finna staðgengil ef þess er þörf. Atvinnurekandi þarf að tilkynna breytingarnar formlega innan viku frá móttöku tilkynningar starfsmanns um foreldraorlof. Í tilkynningunni þurfa að koma fram ástæður sem liggja að baki breyttri tilhögun og ef um frestun er að ræða þarf að taka fram hversu lengi hún varir. Sú frestun getur aldrei varað lengur en í sex mánuði nema starfsmaður samþykki það.
Atvinnurekandi getur ekki frestað foreldraorlofi ef barn veikist eða ef það er tekið í beinu framhaldi af fæðingarorlofi. Þá framlengist réttur til töku foreldraorlofs um eitt ár ef starfsmaður þarf að fresta því á áttunda ári barnsins.

 Foreldraorlof vegna fleiri barna

Eigi starfsmaður rétt á lengra foreldraorlofi en 4 mánuði, þ.e. eigi hann fleiri en eitt barn undir 8 ára aldri, getur hann þó ekki sótt um lengra foreldraorlof en 4 mánuði á einu og sama árinu nema til komi sérstakt samþykki atvinnurekanda. Rétturinn nær einnig til forsjárlausra foreldra. Sá réttur er ekki skilyrtur samþykki þess foreldris sem fer með forsjá eins og rétturinn til fæðingarorlofs. Í greinargerðinni með frumvarpinu segir að ástæðan sé meðal annars sú að heimilt er að taka foreldraorlof skemur en eina viku og taka foreldraorlofs forsjárlauss foreldris því vel samræmanlegt þeim umgengnisrétti sem það á rétt á.

 

 Ítarefni

Lög um fæðingar- og foreldraorlof

Fæðingarorlofssjóður