Hver er réttarstaða félagsmanna í verkfalli?

Meginreglan sú að réttarsamband starfsmanna og atvinnurekanda fellur niður á meðan á verkfalli stendur og eru aðilar ekki bundnir af ákvæðum ráðningarsamnings á þeim tíma sem verkfall varir. Þannig falla launagreiðslur niður og skyldur starfsmanns til að inna af hendi vinnu sömuleiðis.

Þegar verkfalli hins vegar lýkur vakna skyldur aðila á ný og er mönnum skylt að koma þá strax til vinnu og atvinnurekanda jafnframt skylt að taka við starfsmönnum sínum í vinnu. Hins vegar hefur almennt verið litið svo á að verkföll hafi ekki áhrif á ávinnslu réttinda. Þannig telst sá tími sem fólk er í verkfalli til vinnutíma þegar réttur viðkomandi er reiknaður út.

Orlof/sumarfrí. Hvað ef félagsmaður er í orlofi/sumarfríi þegar þegar verkfall stendur yfir?

Þegar félagsmaður er í orlofi/sumarfríi þá telst hann vera í verkfalli. Hann fær því ekki laun frá vinnuveitanda og orlofstaka hans fellur niður á þeim tíma sem verkfall stendur. Félagsmenn í orlofi/sumarfríi fá greitt úr Vinnudeilusjóði líkt og aðrir í samræmi við úthlutunarreglur Vinnudeilusjóðs. Ef félagsmaður er á fyrirframgreiddum launum og fyrirfram ákveðin og skipulögð orlofstaka hefst áður en verkfall skellur á telst hann vera í orlofi.

Má kalla félagsmenn sem eru í sumarfríi/orlofi til vinnu eða eru í vaktafríi?

Vinnuveitanda er ekki heimilt að kalla til vinnu félagsmenn sem hafa verið í sumarfríi eða vaktafríi eftir að verkfall er hafið, ekki frekar en aðra félagsmenn, nema þá ef þeir eru á undanþágulista eða eru kallaðir til vinnu samkvæmt ákvæði 20. gr. laga nr. 94/1986. Skiptir í því sambandi ekki máli hvort starfsmaður hefur hafið orlof eða hvort hann hugðist hefja það á verkfallstímabilinu.

Má kalla út aðra starfsmenn á aukavaktir meðan á verkfalli félagsmanna stendur?

Það má ekki bæta í mönnun vegna verkfalls. Aðrir starfsmenn eiga ekki að fá aukin verkefni, utan þeirra er þeir sinna öllu jöfnu. Litið hefur verið svo á að með því að fjölga öðrum starfsmönnum sé verið að láta þá ganga í störf félagsmanna.

Geta yfirmenn gengið í störf félagsmanna í verkfalli?

Æðstu stjórnendur geta gengið í öll störf í verkfalli þar sem þeir bera ábyrgð á rekstri stofnunarinnar. Þannig má t.d. rektor eða skólastjóri ganga í störf húsvarðar og opna skólabyggingu fyrir nemendur, svara í síma o.s.frv.

Má taka aukavaktir, breyta vöktum í verkfalli?

Í verkfalli gildir fyrirliggjandi vaktaskýrsla. Breytingar á henni, þar með taldar aukavaktir eða breyttar vaktir eru ekki heimilar nema til komi samþykkt undanþágunefndar sem stéttarfélag skipar.