Hvað með fæðingarorlof, tímavinnu, námsleyfi og veikindi í verkfalli?

Þeir sem eru í fæðingarorlofi, eru þeir í verkfalli?

Engar breytingar verða á högum þeirra sem eru í fæðingarorlofi. Launagreiðslur félagsmanna í fæðingarorlofi koma frá Fæðingarorlofssjóði og hafa því ekkert með verkfall félagsmanna sem starfa samkvæmt kjarasamningi félagsins við samningsaðila að gera.

Hvað um félagsmenn í tímavinnu?

Um félagsmenn sem eru í tímavinnu gildir sama regla og ef um fastráðinn starfsmann væri að ræða. Ef félagsmaður er skráður í starfshlutfall eða á vaktarúllu, gildir fyrirliggjandi vaktaskýrsla og er félagsmaður þá í hópi þeirra sem starfað geta á öryggislista (undanþágulista). Ef félagsmaður í tímavinnu er ekki skráður á vaktaskýrslu telst hann vera í verkfalli líkt og aðrir og kemur því ekki til greina við störf samkvæmt undanþágulista.

Námsleyfi, fellur það niður í verkfalli?

Laun í námsleyfi falla niður í verkfalli og verður félagsmaður að taka leyfið út seinna. Félagsmaður sem er í námsleyfi getur hins vegar sótt um verkfallsbætur því hann á rétt á greiðslu úr Vinnudeilusjóði líkt og hann sé í starfi.

Starfsmaður í veikindum, heldur hann launum?

Á meðan á verkfalli stendur falla meginskyldur ráðningarsamningsins niður. Þannig mega aðilar ekki framkvæma ákvæði ráðningarsamningsins á meðan á því stendur. Félagsmaður fær því ekki laun á meðan verkfall varir og heldur ekki veikindalaun, þrátt fyrir að veikindi hafi verið tilkomin áður en til verkfalls kom. Félagsmaður sem er í veikindum getur hins vegar sótt um verkfallsbætur því hann á rétt á greiðslu úr Vinnudeilusjóði líkt og hann sé í starfi.