Vel mætt á fræðsludag fyrir starfsmenn íþróttamannvirkja

Um 60 manns mættu til fundarins í Hofi.
Um 60 manns mættu til fundarins í Hofi.

Um 60 mann mættu til fræðsludags fyrir starfsfólk íþróttamannvirkja á félagssvæði Kjalar en fundurinn var haldinn síðastliðinn þriðjudag í menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Af þessari góðu aðsókn má ráða að bæði er þörf og áhugi á fræðslu og starfsmenntun á þessum vinnustöðum en meðal framsöguerinda á fræðsludeginum var einmitt kynning Bergþóru Guðjónsdóttur, verkefnastjóra, á námsleiðinni Þrótti sem Starfsmenn býður upp á.

Vegna fræðsludagsins var víða lokað á sundstöðum og í þróttahúsum þennan dag en dagskráin stóð frá kl. 11 til kl. 15. Kristinn J. Reimarsson, sviðsstjóri samfélagssviðs Akureyrarbæjar ávarpaði fundinn, Halldór Arinbjarnarson, upplýsingastjóri Ferðamálastjóri flutti erindi sem bar yfirskrftina „Íslensk gestrisni er auðlind“. Þá fjallaði Þórey Agnarsdóttir frá embætti heilbrigðisfulltrúa um öryggi og forvarnir í íþróttahúsum og á sundstöðum en lokaerindi dagsins var frá Erni Árnasyni, leikara, sem fjallaði um ýmsar hliðar á þjónustuhlutverkinu. Fundarstjóri var Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar stéttarfélags.

Markmiðið með fræðsludeginum var að bjóða upp á fræðslu um öryggismál og þjónustu, jafnframt því að koma á framfæri við starfsmenn íþróttamannvirkja og forstöðumenn hvaða leiðir eru í boði í starfsmenntamálum. Óhætt er að segja að vel hafi tekist til og voru fundarmenn ánægðir í dagslok.