Samþykktir Mannauðssjóðs

Eingöngu fyrir starfsmenn sveitrarfélaga, þ.e. Akraneskaupstaðar, Akureyrarbæjar, Borgarbyggðar, Blönduósbæjar, Dalvíkurbyggðar, Fjallabyggðar, Húnaþings vestra, Seltjarnarnesbæjar, Sveitarfélagsin Skagastrandar, Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Norðurorku hf., Hjallastefnu og Dalbæjar.

1. gr.
Sjóðurinn heitir Mannauðssjóður Kjalar stéttarfélags. Um er að ræða starfsmenntunarsjóð sem starfar á grund­velli kjarasamninga.

2. gr.
Heimili sjóðsins og varnarþing er á skrifstofu Kjalar - stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu, Skipagötu 14, 602 Akureyri.

3. gr.
Markmið sjóðsins er að stofna og reka sameiginlegan starfsmenntunarsjóð á grundvelli kjarasamnings Kjalar stéttarfélags og Launanefndar sveitarfélaga, sbr. gr. 13.4.2 í kjarasamningi frá 29. maí 2005. Sjóðurinn starfar einnig á grundvelli sambærilegra ákvæða í öðrum kjarasamningum Kjalar.


4. gr.
Sjóðurinn sinnir markmiðum sínum á sviði símenntunar og mannauðs með því að veita styrki til:
a) sveitarfélaga, stofnana og vinnuveitenda sem greiða í sjóðinn
b) Kjalar stéttarfélags og Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu
c) Verkefna sem sjóðsstjórn skipuleggur eða á aðkomu að

Umsóknir skulu sendar stjórn sjóðsins þar sem fram kemur lýsing á því verkefni sem sótt er um styrk til, skipulagi þess, efnisinntaki, áætlaðri framkvæmd, kostnaði, öðrum styrkjum og framlagi umsækjanda.

5. gr.
Stofnfélagar eru: Launanefnd sveitarfélaga sem starfar á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga kt. 550269-4739, Borgartúni 30, 105 Reykjavík fyrir hönd þeirra sveitarfélaga og annarra aðila sem hún hefur samningsumboð fyrir og Kjölur - stéttarfélag í almannaþjónustu kt. 451275-2599, Skipagötu 14, 600 Akureyri.

6. gr. 
Aðild að sjóðnum eiga félagsmenn Kjalar stéttarfélags og þau sveitarfélög og aðrir aðilar sem Launanefnd sveitarfélaga hefur umboð frá á félagssvæði KJALAR stéttarfélags og eftir atvikum aðrir viðsemjendur félagsins.

7. gr.
Stjórn sjóðsins skal skipuð fjórum mönnum, þ.e. tveimur fulltrúum Kjalar stéttarfélags og tveimur fulltrúum vinnuveitenda, þar af a.m.k. einum frá Launanefnd sveitarfélaga. Varamenn í stjórn skulu vera tveir, einn frá hvorum aðila. Stjórnin kýs formann og varaformann úr hópi aðalmanna á hverjum aðalfundi. Formaður boðar stjórnarmenn á stjórnarfundi þegar þurfa þykir. Úthlutun úr sjóðnum skal fara fram reglulega. Stjórnin skal setja sér reglur um mat á umsóknum. Dagleg umsjón sjóðsins er hjá skrifstofu Kjalar stéttarfélags, Skipagata 14, 602 Akureyri. Firmaritun sjóðsins er í höndum allrar stjórnar sameiginlega.

8. gr.
Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Í upphafi hvers árs heldur stjórn aðalfund þar sem farið er yfir árangur liðins árs. Ársskýrsla og reikningar sjóðsins skulu kynnt hlutaðeigandi sveitarfélögum og stjórn Kjalar stéttarfélags.

9. gr.
Sjóðurinn er fjármagnaður með iðgjöldum þeirra sveitarfélaga og annarra viðsemjenda Kjalar stéttarfélags sem eiga aðild að sjóðnum í samræmi við ákvæði kjarsamninga hverju sinni og nánari ákvörðun stofnaðila.

10. gr.
Ef rekstrarafgangur er af starfsemi sjóðsins skal verja honum síðar í þágu sjóðsins, þ.e. til styrkúthlutana.

11. gr.
Ákvörðun um slit sjóðsins á sér stað við gerð kjarasamnings stofnaðila. 


Reykjavík, 11. janúar 2008

Fh. Kjalar stéttarfélags  Fh. Launanefndar sveitarfélaga með fyrirvara um samþykki hennar


Arna Jakobína Björnsdóttir (sign)
Guðbjörg Antonsdóttir (sign)

Karl Björnsson (sign)
Guðrún Ósk Sigurjónsdóttir (sign)