Samþykktir Vísindasjóðs tónlistarskólakennara

Samþykktir um Vísindasjóð KJALAR stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu v/ tónlistarskólakennara

1. grein
Sjóðurinn heitir Vísindasjóður KJALAR stéttarfélags v/ tónlistarskólakennara. Sjóðurinn starfar með því markmiði og skipulagi, sem í reglum þessum segir. Heimili sjóðsins og varnarþing er á Akureyri 

2. grein
Aðild að sjóðnum eiga tónlistarskólakennarar sem eru félagsmenn KJALAR og taka laun samkvæmt kjarasamningi KJALAR vegna tónlistarskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga f.h. Akureyrarbæjar 

3. grein
Stjórn sjóðsins skal skipuð 4 mönnum til fjögurra ára í senn. Tveir tilnefndir af Akureyrarbæ og tveir frá KILI og skal annar þeirra koma úr stjórn KJALAR en hinn úr hópi tónlistarskólakennara. Formaður stjórnar sjóðsins skal vera annar fulltrúa KJALAR. Stjórnin skal halda gerðabók og rita í hana allar samþykktir sínar

4. grein
Tekjur sjóðsins eru:
    • Framlag bæjarsjóðs, eins og um er getið hverju sinni í gildandi kjarasamningi KJALAR stéttarfélags v/ tónlistarskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga f.h. Akureyrarbæjar
    • Vaxtatekjur

     5. grein - ársreikningur og endurskoðun

Skrifstofa Kjalar sér um daglegan rekstur sjóðsins í umboði stjórnar hans. Fé sjóðsins skal ávaxta á sem tryggastan hátt
Ársreikning sjóðsins skal birta með reikningum Kjalar og skal hann endurskoðaður með sama hætti og félagssjóður. Ársreikninginn skal leggja fram og afgreiða á aðalfundi með öðrum reikningum félagsins. Skýrsla yfir starfsemi sjóðsins skal fylgja skýrslu stjórnar Kjalar stéttarfélags 

6. grein - markmið
Markmið sjóðsins er að auka tækifæri tónlistarskólakennara til framhaldsmenntunar, rannsókna og skólaþróunar auk þess að styðja við námsefnisgerð fyrir tónlistarskóla. Styðja við kennara til að sækja sér þekkingar með vettvangsferðum s.s. ráðstefnur og kynnisferða

7. grein
Þeir sem sækja um styrk úr sjóðnum skulu senda stjórn sjóðsins umsókn skv. reglum þar að lútandi. Á grundvelli umsóknar tekur sjóðstjórn ákvörðun um hvort og hve háan styrk viðkomandi umsækjandi skuli fá.

Við gerð umsókna skal horfa til eftirfarandi þátta undir stafliðum A og B:

A: Styrkur til námsefnisgerðar eða þróunar- eða rannsóknarverkefnis

Hvert verkefni á sviði námsefnisgerðar/þróunar/rannsóknar getur einungis fengið einn styrk frá sjóðnum. Umsækjandi getur ekki fengið styrk eigi hann ólokið verkefni sem sjóðurinn hefur áður styrkt. Fái verkefni styrk skal þess getið í prentuðum útgáfum, eða eftir því sem við á, að sjóðurinn hafi styrkt útgáfuna. Í umsókn þarf eftirfarandi að koma fram:

a) Almennar upplýsingar um umsækjanda
b) Upplýsingar um menntun og fræðilegan bakgrunn umsækjanda
c) Nöfn annarra þátttakenda og samstarfsaðila, ef einhverjir eru
d) Upplýsingar um fyrri verk á sviði námsefnisgerðar, rannsóknar- og þróunarverkefna
e) Greinargóð lýsing á verkefninu, markmiðum þess og þýðingu. Er t.d. þörf fyrir verkefnið og bætir það einhverju við það efni sem þegar er til
f) Tímasett verkáætlun
g) Greinargóðar upplýsingar um áætlaðan kostnað og framlög til verkefnisins, s.s. upplýsingar um aðra styrki

 

Mat á umsókn um styrk til námsefnisgerðar, þróunar- eða rannsóknarverkefnis skal einkum byggjast á eftirfarandi:

 

    1. Að verkefnið hafi gildi fyrir tónlistarkennslu og/eða skólaþróun og uppfylli þörf sem er til staðar.
    2. Faglegum vinnubrögðum varðandi efnistök og frágang verkefnis.
    3. Að verkefnið feti nýjar slóðir t.d. hvað varðar skapandi tónlistarstarf, nýjungar í kennslu eða notkun nýrra miðla í tónlistarkennslu.
    4. Að umsækjanda takist að ná þeim markmiðum er verkefnið miðar að
    5. Starfsferli og faglegum eða fræðilegum bakgrunni umsækjanda og annarra þátttakenda
    6. Að umsókn sé skýr, greinargóð og vel frágengin

 

B: Úthlutunarreglur vegna hópferða

 Skilyrði styrkveitinga vegna skipulagðra hópferða, (náms- og kynnisferða og/eða skólaheimsókna) eru að staðfest tímasett dagskrá frá skipuleggjanda og/eða móttökuaðila liggi fyrir og að dagskrá standi yfir að lágmarki í 6 klst. Styrkveiting nær til eftirfarandi kostnaðarþátta sem falla til vegna ferðar: Skráningargjalda námskeiða, ráðstefna og málþinga, ferða- og gistikostnaðar. Sjóðurinn greiðir fyrir gistinætur sem sannanlega varða ferðina auk einnar viðbótarnætur ef þannig háttar til, s.s. vegna ferðatilhögunar.

Styrkur á hvern einstakling er að hámarki 150.000 kr. á tveggja ára tímabili.
Fullnægjandi er að ábyrgðarmaður ferðar sendi eina staðfestingu um þátttöku fyrir allan hópinn.
Staðfesting þarf að tilgreina:
a. Greinargerð frá ábyrgðarmanni um tilgang og markmið ferðar
b. Tímasett dagskrá ferðar sem er í samræmi við starfsáætlun, tilgang og markmið
c. Staðfestingu móttökuaðila
d. Lista yfir þátttakendur (nafn, kennitala)
e. Kostnaður félagsmanns vegna ferðar s.s. afrit af farseðli og öðrum ferðakostnaði gistikostnaði, skráningargjöld og öðrum kostnaði sem fellur til vegna dagskrár ferðar.
Ábyrgðarmaður er jafnframt tengiliður hópsins við sjóðstjórn. Styrkur er greiddur til hvers þátttakanda í ferð enda hafi viðkomandi lagt út fyrir kostnaðinum.
Úthlutun úr þessari deild hefur ekki áhrif á möguleika einstaklings að sækja um styrk úr Fræðslusjóði Kjalar vegna símenntunar.

 

8. Grein – styrkfjárhæð
Styrkfjárhæðir eru endurskoðaðar af sjóðstjórn a.m.k. árlega og lagðar fram til staðfestingar hjá samningsaðilum

Aldrei eru greiddir hærri styrkir en sem nemur framlögðum reikningum/staðfestingum
9. Grein - afgreiðslur
Umsóknir eru afgreiddar tvisvar á ári í september og apríl/maí ár hvert
Sjóðstjórn getur á hverju ári ákveðið að veita ekki styrki með hliðsjón af fjárhagsstöðu sjóðsins 

10. Grein - gildissvið
Reglur þessar voru endurskoðaðar í febrúar 2020 en þær eru í grunninn byggðará samkomulagi milli Starfsmannafélags Akureyrarbæjar og Launanefndar sveitarfélaga f.h. Akureyrarbæjar dags. 13. desember 1993,
Breyting gerð á 5. grein samþykktar sjóðsins 1.nóvember 1995
Breyting gerð á 2., 7., 8. og 9 grein samþykkta sjóðsins í febrúar 2020. Þá var einnig 10 grein bætt við sem efnislega var áður 9. grein


Samþykkt í stjórn Vísindasjóðs Kjalar stéttarfélags v/ tónlistarskólakennara 20. febrúar 2020